141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stóriðjusamningar og loftslagsmál.

[10:35]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Við styðjum auðvitað öll verkefni, innlend sem erlend, að því er varðar atvinnuuppbyggingu og fjárfestingar svo fremi sem þau rúmast innan allra laga og reglna og alþjóðasamninga sem við erum aðilar að. Við og Landsvirkjun höfum sannarlega horft til þessa svæðis á norðausturhorninu og við höfum einmitt verið að fara yfir í atvinnustöðuna þar að því er varðar t.d. samgöngubætur og hafnarbætur sem sannarlega þarf að ráðast í ef fara á í þá uppbyggingu sem þar er fyrirhuguð. Við höfum viljað leggja okkar af mörkum að því er varðar þann þátt sem snýr að samgöngubótum og hafnarbótum og sett í það einhverja fjármuni. Ég tel að við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að sú uppbygging sem þar er fyrirhuguð og Landsvirkjun hefur ráðist í og undirbúið, komist til framkvæmda. Kísilverksmiðjan, af því að hún er nefnd sérstaklega, er auðvitað innan sama ramma og ég lýsti, þ.e. rúmist hún innan þeirra laga og reglna sem við vinnum eftir í umhverfismálum og skipulagsmálum munum við auðvitað styðja þá framkvæmd.

Við höfum farið í ýmsa fjárfestingarsamninga á umliðnum árum og missirum og það er ýmislegt í pípunum að því er varðar uppbyggingu og fjárfestingarsamninga sem unnið er að. Undirritaðir hafa verið fimm fjárfestingarsamningar, ef ég man rétt, og ég held að það séu 12 í farvatninu þannig að það er ýmislegt á döfinni í atvinnumálum og atvinnuuppbyggingu. Við styðjum allt sem til framfara horfir í því efni svo fremi sem það rúmast innan þeirra laga, reglna og umhverfisþátta sem við viljum fylgja.