141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stóriðjusamningar og loftslagsmál.

[10:39]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort ég þarf að endurtaka það sem ég sagði áðan, við styðjum auðvitað öll þau fjárfestingarverkefni sem komin eru á þann stað að hægt sé að fara að framfylgja þeim. Ég nefndi einmitt hafnarframkvæmdir og samgönguframkvæmdir, sem hv. þingmaður minntist á. Við höfum verið fara yfir þau mál og við erum jákvæð gagnvart því að styðja við þær framkvæmdir, samgöngubæturnar og hafnarbæturnar, sem þurfa að verða í tengslum við þá atvinnuuppbyggingu sem á sér stað á norðausturhorninu (Gripið fram í.) og Landsvirkjun er að vinna að. (BjarnB: Svar.) Mér finnst að hv. þingmaður gleymi því oft þegar hann og stjórnarandstaðan öll talar um það hvað hér sé mikill hagvöxtur samanborið við önnur lönd. Hér er hagvöxtur um 2,5% og (Gripið fram í.) er talað um að hann muni aukast verulega á næstu árum. (Gripið fram í.) Mig minnir að hagvöxtur eigi að vera nálægt 4% á árinu 2015. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður þarf ekki að efast um að við styðjum þau fjárfestingaráform sem komin eru svo langt að hægt er að vinna áfram með þau. Gerðir hafa verið margir fjárfestingarsamningar, eins og ég nefndi, og margir eru í pípunum. Við eigum jákvætt samstarf með þeim sem þar þurfa að koma að, Landsvirkjun sem öðrum. (TÞH: Það verður ekki passað þegar þessi fyrirtæki hætta við.)

(Forseti (RR): Forseti hyggst bjóða sérstaklega velkomna á palla Alþingis unga nemendur úr grunnskólum.)