141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

heilsutengd þjónusta.

[10:43]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðrún Erlingsdóttir rakti sögu og lagasetningu frá 2005 varðandi græðara þar sem lög voru sett til að stuðla að gæðum og öryggi þeirra sem nota þjónustu sem er utan hefðbundna kerfisins. Unnið hefur verið eftir þeim lögum og hefur verið starfandi félag græðara sem fylgst hefur með og skráð fjölda þeirra sem sinna þeirri þjónustu. Við höfum séð að gríðarlega margir nýta sér þessa þjónustu. Ég fékk í hendurnar könnun sem gerð var fyrir nokkrum árum, árið 2006 ef ég man rétt. Þá sögðust 32% aðspurðra nýta sér þjónustu frá aðilum sem stunduðu óhefðbundna meðferð, sem sagt sem voru utan opinbera heilbrigðiskerfisins.

Það hefur verið tímabært á sínum tíma að setja þessi lög. Í framhaldi fylgdu reglugerðir, meðal annars um gjaldskrá og tryggingu þannig að tryggt væri að þarna gæti ekki hver sem er komið inn heldur væri fylgt eftir ákveðnum gæðakröfum. Þess var einnig gætt að starfsábyrgð væri gagnvart því sem þarna er unnið. Landlækni var falið að hafa eftirlit með starfseminni.

Meginspurning hv. þingmanns er hvort ráðherra telji grundvöll til að skoða hvort framkvæmanlegt sé að Sjúkratryggingar Íslands komi að því að niðurgreiða heildrænar meðferðir. Ég verð að viðurkenna að það hefur ekki verið til umræðu í ráðherratíð minni í velferðarráðuneytinu og hefur ekki verið skoðað sérstaklega, en auðvitað væri full ástæða til þess. Menn hafa verið að ræða ýmsar aðrar leiðir innan heilbrigðiskerfisins, um heilsuhreyfiseðla og fyrirbyggjandi aðgerðir og auðvitað kemur til greina að meta reynsluna af slíku og viðurkenna með einhverjum hætti þá starfsemi sem vissulega hefur sannað gildi sitt.

En svarið sem sagt er að sá undirbúningur hefur ekki enn átt sér stað í ráðuneytinu.