141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

opinber innkaup.

[10:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er einmitt nýbúin að mæla fyrir frumvarpi til laga um opinber innkaup þar sem gerðar eru ákveðnar breytingar til að skerpa á stefnu stjórnvalda í þessum efnum. En það er rétt sem hv. þingmaður segir, það skiptir náttúrlega öllu máli að menn fari að lögum um opinber innkaup. Ef einhver brögð eru að því að stofnanir geri það ekki er það auðvitað sérstakt viðfangsefni sem fara þarf yfir.

Hv. þingmaður nefnir ekki nein sérstök dæmi. Hann nefnir eingöngu að hann hafi heyrt um einhverjar stofnanir. Það væri ágætt ef menn segðu um hvaða stofnanir sé að ræða og um hvað er raunverulega verið að spyrja þannig að ég geti þá látið skoða það sérstaklega. Það er algerlega ljóst að við erum með lög um opinber innkaup. Eftir þeim ber að fara. Geri menn það ekki er það sérstakt athugunarefni. Það tökum við mjög alvarlega.

Það skiptir líka mjög miklu máli sem hv. þingmaður sagði að menn vandi sig við öll innkaup fyrir ríkið. Við þurfum að fara vel með það fé sem okkur er falið af hálfu skattgreiðenda að gæta og verja. Sem betur fer hefur okkur tekist að ná fram mjög miklu aðhaldi í rekstri ríkisins á undanförnum árum sem skilar sér í því að við erum búin að ná frumjöfnuði og munum ná heildarjöfnuði á árinu 2014. Innkaupastefna ríkisins er auðvitað liður í því.