141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

húsaleigubætur til námsmanna.

[11:02]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Varðandi spurningu hv. þingmanns þá er málið statt þannig að það er verið að koma fram með lagafrumvarp, vonandi strax eftir áramótin, um húsnæðisbætur í stað húsaleigu- og vaxtabóta, að vísu með innleiðingu á löngum tíma. Gert er ráð fyrir að það komi reglugerð sem fjallar um húsaleigubætur á næsta ári, þá á ég við með hefðbundnum hætti nema með hækkuðum greiðslum. Það er gert ráð fyrir hátt í milljarði í aukningu á húsaleigubótum til þess að reyna að koma til móts við þá aðila sem þar eru.

Samtímis hefur verið í endurskoðun lagaumhverfi sérstaklega fyrir húsnæðissamvinnufélög og leigufélög og við erum komin með tillögur frá undirhópi sem vann að því máli. Ég verð að viðurkenna að mér er ekki alveg kunnugt um hvort akkúrat þetta mál hefur komið þar inn undir, en ég kannast við málið. Þetta er mál sem hefur komið upp í Fljótsdalshéraði eins og hv. þingmaður nefndi og eins í Skagafirði og víðar en auðvitað er það vandmeðfarið af því að það eru sveitarfélögin sem borga og sjá um framkvæmdina á húsaleigubótum. Það er auðvitað vandmeðfarið hvar mörkin eiga að vera, hvort það eigi að miða við ákveðinn kílómetrafjölda eða hvort það eigi að miða við samgöngur, almenningssamgöngur og svo framvegis.

Ég held að það sé sjálfsagt að skoða þetta mál. Það hefur verið flutt þingmál um þetta, ef ég veit rétt, eða að minnsta kosti vakin athygli á því af þingmönnum. Þannig að okkur er ekkert að vanbúnaði að fara yfir með sveitarfélögunum hvort við getum breytt þessari framkvæmd. Ef húsnæðisbæturnar verða að lögum þegar þar að kemur þá fer þessi málaflokkur alfarið yfir til ríkisins, það er almennu húsaleigubæturnar en sérstöku húsaleigubæturnar verða hjá sveitarfélögum.

Þannig að svar mitt er að það er ekki búið að gera neitt í þessu að svo stöddu, að því sem mér er kunnugt um, en það er sjálfsagt að taka málið upp í tengslum við þá spurningu sem hér kom fram.