141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[11:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður talaði töluvert mikið um breytingar á stjórnarskránni og umræðuna. Ég verð að segja eins og er að mér finnst umræðan hingað til hafa verið nokkuð góð en mér finnst henni farið að hraka vegna þess að stjórnarliðar eru ekki á mælendaskrá. Ég hefði viljað að hv. stjórnarliðar og hv. stjórnarandstæðingar ræddu málin efnislega og málefnalega. Ég tel mjög brýnt að öll sjónarmið komi fram. Það horfir ekki vel en það getur breyst. Kannski átta hv. stjórnarliðar sig á því að þeir eru stjórnlagaþing. Við erum að gefa íslensku þjóðinni stjórnarskrá og það er mjög veigamikið hlutverk þingmanna.

Hv. þingmaður talaði um að það væri kannski ágætt að breyta þessu í pörtum og þá er spurningin: Hvernig vill hann sjá breytingar á stjórnarskrá? Þetta er afskaplega þunglamalegt kerfi, þ.e. um leið og búið er að samþykkja breytingar á stjórnarskrá þurfa að fara fram kosningar sem þýðir að breytingar á stjórnarskrá eru yfirleitt síðasta málið sem samþykkt er fyrir kosningar. Það gerist eiginlega alltaf í lok kjörtímabils og lendir þá í þeim hasar sem fylgir lokum kjörtímabils þar sem menn eru að búa sig undir kosningar, prófkjör og annað slíkt.

Hefur hv. þingmaður skoðað hugmyndir sem ég hef sett fram um breytingar á 79. gr. og finnst honum það of hratt? Finnst honum þröskuldarnir þar of miklir, þungir eða jafnvel of lágir? Hvernig vill hann sjá breytingar á stjórnarskrá?

Svo vil ég spyrja hann um eitt efnislegt atriði. Það stendur að allir hafi meðfæddan rétt til lífs. Getur það verið að viku fyrir fæðingu hafi menn ekki rétt til lífs?