141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[11:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og stjórnarskráin er uppbyggð núna og þegar breytingar eru gerðar á henni greiðir þjóðin í rauninni aldrei með bindandi hætti atkvæði um stjórnarskrána sína. Fyrst samþykkir eitt þing stjórnarskrána, síðan verða almennar kosningar þar sem verið er að kjósa á milli manna og flokka út frá því hvað þeir ætla að gera fyrir heimilin, fjárhagslega stöðu þeirra, skapa atvinnu eða hvernig þeir vilja hafa efnahagsmálin og slíkt. Þá eru menn ekki að greiða atkvæði um stjórnarskrána. Síðan kemur nýtt þing og það samþykkir þá stjórnarskrá óbreytta, ef því sýnist svo, og þá verður hún að nýrri stjórnarskipun — og þjóðin kom aldrei að því.

Það sem ég legg til með þessari breytingu á 79. gr. er að fá þjóðina með bindandi hætti að stjórnarskránni.

Ég tel að mannréttindi séu megininntak stjórnarskrár, og meginatriði í mannréttindum er rétturinn á lífi, þ.e. að það megi ekki drepa fólk, hvorki rétt fyrir fæðingu né eftir. Ég vildi bara láta standa: Engan má drepa.