141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[11:28]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Varðandi það hvernig við fáum þjóðina með okkur í að staðfesta endanlegt plagg eru hugmyndir þingmannsins að nokkru leyti samrýmanlegar þeim hugmyndum sem Björg Thorarensen hefur bent á að hafi verið farið eftir 1944. Ég tek undir það, það er áhugavert að gera slíkar breytingar. Við gætum farið þá leið sem ég hef lagt til, að kaflaskipta stjórnarskránni og taka þá þætti sem við erum sammála um en vinna betur í hinum og stefna að því að ljúka þeim til að mynda á næsta kjörtímabili. Ég tel mjög mikilvægt að við setjum inn auðlindaákvæði, það þarf bara að fara aðeins betur yfir orðalag og skilgreiningar í því efni. Þá værum við komin með tæki til þess að vinna verkið til enda á einhverjum árum og ég tel að við eigum að sýna stjórnarskránni þá virðingu, og ég geri það, líka núverandi stjórnarskrá, að við byggjum á því sem við höfum en breytum ekki allt of mörgu í einu fyrr en við erum búin að íhuga það vel og rækilega.