141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[11:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að ræðu mína megi ekki skilja þannig að ég hafi eitthvað á móti því að þessi umræða fari hér fram eða þetta mál sé komið til þingsins. Ég hef einmitt kallað eftir því að við eigum þessa málefnalegu umræðu og tel það afar mikilvægt. Þess vegna kallaði ég eftir því að þeir sem bera þetta frumvarp fram og hafa lýst sig fylgjandi því, og einstaka menn hafa sagt að þeir væru tilbúnir að klára það mjög hratt og vel og samþykkja, kæmu og útskýrðu ákveðnar greinar. Ég hef kallað eftir því hérna nokkrum sinnum að kosningakaflinn yrði rökstuddur og þær afleiðingar sem margir hafa bent á, til að mynda að landsbyggðarþingmenn yrðu á bilinu 11 til hámark 15. Hvernig rökstyðja menn að það sé skynsamlegasta leiðin?

Ég vil benda á fyrirmynd í Noregi. Ég hef reyndar heyrt einstaka stjórnarþingmann, meira að segja úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, benda á að þar sé atkvæðavægi ekki bara einn maður, eitt atkvæði heldur sé líka tekið tillit til landsvæðis. Þar sem hér er verið að auka vægi náttúrunnar í stjórnarskránni væri þetta ekki óeðlilegt. Ég bendi á að Skaftárhreppur er til að mynda 7% af Íslandi. Það yrði mjög erfitt í dag og næstum útilokað í þessu nýja kerfi að þaðan kæmi þingmaður sem væri þá fulltrúi þessa 7% af Íslandi því að þar eru bara 480–490 íbúar og fer því miður fækkandi vegna þess að við höfum ekki tekið nægilega á atvinnu- og samfélagsmálum þar.

Ég tek undir með hv. þingmanni um þær ábendingar sem sérfræðihópurinn kemur með, m.a. að stjórnlagaráðið sjálft hefði gert mati á áhrifum hátt undir höfði í 2. mgr. 57. gr., þ.e. „að mat á áhrifum lagasetningar skuli fylgja frumvörpum samkvæmt nánari ákvæðum í lögum“. Því er slegið föstu að því þýðingarmeiri sem tillögur séu þeim mun meiri rækt eigi að leggja við mat á áhrifum, samanber Handbók um undirbúning og frágang (Forseti hringir.) lagafrumvarpa. (Forseti hringir.)

Hvaða mál er mikilvægara en stjórnarskráin?