141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[11:45]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mjög ánægjulegt að við ræðum hér frumvarp til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

Ef maður leitar að skilgreiningu á stjórnarskrá má meðal annars finna þessa, með leyfi forseta:

„Stjórnarskrá er heiti yfir allar þær reglur sem ráða stjórnskipun ríkis. Stjórnarskrá getur verið í formi eins ákveðins skjals eða hún getur verið dreifð í mörgum rituðum textum, hún getur einnig verið óskrifuð að miklu eða öllu leyti, t.d. geta hefðir og venjur haft stjórnskipulegt gildi og þannig verið hluti af stjórnarskránni.“

Í mínum huga er stjórnarskrá sáttmáli þjóðar, byggður á lagalegum og hugmyndafræðilegum grunni. Í stjórnarskrá þurfa að koma fram þau gildi sem við viljum byggja samfélag okkar á svo og þær reglur sem við viljum að myndi ramma utan um samfélagið. Í mínum huga eru þau atriði jafnmikilvæg, gildin og lagaramminn. Ofuráhersla á lagalegt gildi stjórnarskrárinnar er að mínu mati takmarkandi í því plaggi sem á að vera þjóðarsáttmáli og þjóðin á að upplifa sem sinn.

Sú tillaga að stjórnarskrá sem stjórnlagaráð skilaði þinginu sl. sumar er unnin í mikilli samvinnu við þjóðina. Ferlið sem stjórnlaganefnd, þjóðfundur og loks stjórnlagaráð mynduðu var þáttur í því samvinnuferli. Það að spyrja þjóðina svo ráða um hvort hún vildi að útkoma samvinnuferlisins ætti að mynda grundvöll að fyrstu íslensku stjórnarskránni eða ekki, var eðlilegt framhald ferlisins sem lagt var upp með.

Yfirferð lögfræðilegrar sérfræðinganefndar, sem hefur farið yfir tillögurnar með lagalega árekstra í huga og tengsl við alþjóðlega sáttmála sem við erum aðilar að, er mikilvæg. Tillögur þeirra liggja fyrir og nú er hið eiginlega þinglega ferli að fara af stað þar sem umsagna verður leitað til að tryggja að þjóðarsáttmáli okkar og grundvallarlög verði sem allra vönduðust um leið og sú grundvallarhugsun sem fólkið í landinu vill hafa er varðveitt. Mér líst mjög vel á hugmyndina sem hefur komið fram hjá formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að allar nefndir þingsins hafi sitt að segja og geti þá leitað ákveðinna umsagna um hluta málsins.

Mér finnst mjög ánægjulegt að upplifa þá uppbyggilegu umræðu sem nú fer fram á þinginu um stjórnarskrármálið og vonandi fylgir áframhaldandi umræða í samfélaginu um það. Vonandi tekst okkur að gera umræðuna jákvæða og uppbyggilega þó svo að stjórnmálamenn og lögspekingar séu ekki á einu máli um form og innihald. Þetta er frábært tækifæri fyrir þjóðina, fyrir alla aldurshópa, til að ræða skipan mála. Það er spennandi að ræða stjórnskipan og grunngildi samfélagsins við ungt og frjótt fólk sem er tilbúið til að hugsa út fyrir rammann. Það er ekki síður spennandi að ræða þetta mál við eldra fólk sem á lífsreynsluna til að meta mál eftir og getur því svo vel bent á það sem betur má fara.

Nú langar mig að víkja máli mínu að einni grein frumvarpsins, 39. gr., og einangra mig við eitt atriði hennar sem er jafnt vægi atkvæða. Margir líta á það sem sjálfsögð mannréttindi, að það verði sjálfsagt og eðlilegt að einn maður eigi eitt atkvæði jafngilt hvar sem menn búa. Meiri hluti þjóðarinnar vill að þannig verði skipan mála samkvæmt niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um stjórnarskrármálið og þá niðurstöðu ber að sjálfsögðu að virða.

En það kemur ekki á óvart að í tveimur landsbyggðarkjördæmum sem lengst liggja frá höfuðborgarsvæðinu var svarið við spurningunni í þjóðaratkvæðagreiðslunni í nokkrum meiri hluta neitandi. Ég viðurkenni að ég var ein af þeim sem svöruðu þeirri spurningu neitandi þar sem ég á þá lífsreynslu að hafa allan minn fullorðinsaldur búið eins langt frá höfuðborginni og maður kemst og þekki því af eigin raun þann aðstöðumun sem er til staðar milli íbúa þessa lands eftir búsetu. Því miður tel ég okkur ekki vera tilbúin til að fækka talsmönnum þessa hóps á löggjafar- og fjárveitingasamkomu þjóðarinnar. Það verðum við vonandi einhvern tíma en ég tel þann tíma ekki vera kominn.

Í því sambandi dettur mér í hug að benda á umræður um lélegan tækjakost Landspítalans fyrr í haust. Ég man ekki eftir að aðrir en þeir sem eru fulltrúar landsbyggðarinnar á þingi hafi minnst á að það sama á við um Sjúkrahúsið á Akureyri og fjórðungssjúkrahús landsins. Það segir sína sögu um það hvar við erum stödd í því að hugsa um landið sem eina heild og muna alltaf eftir því að það býr fólk með sínar þjónustuþarfir um allt land.

Það er oft talað um að það þurfi að fara fram umræða og vitundarvakning um mál sem við höfum til umræðu í þinginu áður en við getum farið í að breyta lögum í mikilvægum málum. Nýlegt dæmi er í meðferð velferðarnefndar núna um ætlað samþykki vegna líffæragjafar en það er kúvending frá því sem nú er þar sem gert er ráð fyrir ætlaðri neitun. Í umræðu um málið hefur mikið verið talað um þörf á umræðu um það. Mér finnst það sama eiga við um ákvæði um jafnt vægi atkvæða. Þangað hljótum við að vilja stefna en það þarf að verða vitundarvakning í samfélaginu og meðal kjörinna fulltrúa sem margir hverjir fá hroll og tala um kjördæmapot ef minnst er á hagsmuni hinna dreifðu byggða.

Í umræðu um endurskoðun á lögum um málefni fatlaðs fólks, í tengslum við yfirfærslu á málaflokknum til sveitarfélaganna í lok 2010, kom upp umræðan um að við þyrftum ekki lengur nein sérstök lög um málefni fatlaðs fólks, lög um félagsþjónustu ættu að duga. Allir þeir sem byggju í sveitarfélagi ættu rétt á þjónustu við hæfi, fatlaðir eða ófatlaðir. En niðurstaðan var sú að við værum ekki tilbúin, við værum ekki komin þangað að láta af sértækri löggjöf til að tryggja mannréttindi fatlaðs fólks. Enn væri samfélagið ekki tilbúið til að líta á það sem sjálfsagðan hlut að hindrunum væri rutt úr vegi til að hamlanir fólks hái þeim sem minnst í daglegu lífi, þann rétt þyrfti að tryggja með sértækri löggjöf.

Til að taka umræðuna enn lengra má benda á að um leið og umræðan um að ekki sé þörf á sértækri löggjöf fyrir ákveðna minnihlutahópa eins og fatlað fólk er í gangi, er krafan um að hópur fatlaðra ungmenna fái sérstaka skóla fyrir sig afar hávær, hinn almenni standi sig ekki. Ætti ekki umræðan frekar að snúast um það hvernig við getum bætt hinn almenna skóla og fundið leiðir til að fullnægja félagslegum þörfum ungmennanna en að aðgreina þá frá samfélaginu?

Þau dæmi sem ég hef tekið um tiltekinn minnihlutahóp eiga að vera til þess að skýra þá skoðun mína að við séum ekki tilbúin til að fækka fulltrúum þess minnihlutahóps sem íbúar dreifðra byggða eru á Alþingi Íslendinga. Það þarf að minnsta kosti fleira að koma til jöfnunar en atkvæðavægið. Það þarf að tryggja þjónustuvægið í sama slagnum. Ég efast ekki um að það er hinn eiginlegi vilji þjóðarinnar. Aðgangur að grunnþjónustu eins og menntun, heilbrigðisþjónustu, fjölbreyttri atvinnu, fjarskiptum og þokkalegum samgöngum í eðlilegri fjarlægð frá heimili eru sjálfsögð réttindi fólks á 21. öldinni. Eða hvað?

Erum við enn í baráttu fyrir þeim sjálfsögðu réttindum fyrir ákveðinn hóp? Já, það erum við og þetta er mannréttindabarátta en ekki kjördæmapot. Vonandi á jöfnun á atkvæðavæginu eftir að skila okkur fleiri liðsmönnum í þeirri baráttu en einhvern veginn er ég ekki viss um að svo sé strax, til þess þarf að eiga sér stað jákvæð vitundarvakning um stöðu fólks á landsbyggðinni. Ég er hrædd um að við séum ekki tilbúin frekar en við erum tilbúin til að leggja af sérlög um málefni fatlaðs fólks. Við viljum stefna að hinu almenna, ekki bara einhvern veginn heldur með markvissri umræðu, aðgerðum og réttindabaráttu.

Þrátt fyrir þennan fyrirvara minn í málinu ítreka ég ánægju mína með frumvarpið sem hér liggur fyrir, ekki síst í ljósi þess lýðræðislega ferlis sem ég rakti í upphafi. Málið er nú að fara í ítarlega umfjöllun í nefndum þingsins og mun að sjálfsögðu taka eðlilegum breytingum í því ferli. Umræðan hér hefur verið góð, vonandi heldur umræðan í samfélaginu áfram og kannski getur sú umræða vakið áhuga almennings á almennum stjórnmálum á ný sem væri afar þörf hliðarverkun.

Ég hlakka til áframhaldandi vinnu með frumvarpið í nefndum þingsins og í þessum sal.