141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[11:58]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég endurtek það sem fram kom í ræðu minni, ég legg til að um þetta mál, eins og svo mörg önnur þar sem við erum að breyta mikilvægum atriðum í löggjöf okkar, fari fram mjög markviss og góð umræða. Það er ekki það, búið er að tala um jafnt vægi atkvæða aftur á bak og áfram í samfélaginu en ég held samt að það þurfi að halda áfram að ræða málið og það þarf að leiða fram sjónarmið bæði höfuðborgarbúa og landsbyggðarfólks.

Nú tek ég fram að það þarf ekki endilega að vera bundið við það. Ég held að það séu alveg til höfuðborgarbúar sem hafa aðra skoðun á málinu en fjöldinn. Á sama hátt veit ég líka að það er til landsbyggðarfólk sem vill gjarnan að atkvæðavægi verði jafnt. Ég held að það skipti mjög miklu máli að umræða um það atriði fari fram og hún verði markviss og uppbyggileg, vegna þess að þannig náum við í raun skilningi á málefnum hver annars.