141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[11:59]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jónínu Rós Guðmundsdóttur fyrir ræðu hennar. Í hennar máli og fleiri stjórnarþingmanna hefur komið fram að þeim hugnist ekki 39. gr. og þar með ekki jöfnun atkvæðisréttar. Það kannski skýrir viljaleysi ríkisstjórnarinnar til að fara með plaggið óbreytt í þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og margir stjórnlagaráðsfulltrúar fóru fram á. Sá sem hlaut flest atkvæði í þeirri kosningu lagði til dæmis mjög ríka áherslu á að það færi óbreytt. Við framsóknarmenn eigum liðsmenn í því máli, liðsmenn að því leyti að þeir töldu ófært að fara með það óbreytt fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Mig langar að benda á að þegar stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd var í Noregi kom jafnt vægi atkvæðisréttar eða ójafnt atkvæðavægi auðvitað til umræðu. Sem dæmi má nefna að Norðmönnum hefur aldrei dottið í hug að breyta því á þann hátt að það væri einn maður, eitt atkvæði, vegna þess að líkt og á Íslandi er landsbyggðin þar mjög rík af náttúruauðlindum. Norður-Noregur lýtur stjórnarskrárverndar að því leyti, með fjölda þingmanna. Við skulum því ekki flýta okkur að vinna þetta mál heldur gera það á yfirvegaðan hátt. Ég tel að sömu rök eigi að einhverju leyti við á Íslandi vegna þess að það er raunverulega landsbyggðin sem heldur höfuðborgarsvæðinu uppi vegna gjaldeyrisskapandi atvinnugreina úti á landi.

Mig langar að spyrja þingmanninn, vegna þess að frumvarpið er flutt af hennar samflokksþingmönnum: Hvaða lausn sér hún í málinu varðandi 39. gr. úr því að hún hafnar henni? Er einhver millileið til eða eigum við að taka núgildandi grein inn í (Forseti hringir.) stjórnarskrá gilda og hafa hana áfram óbreytta?