141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:01]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Mig langar til að það komi skýrt fram, ég taldi mig bæði byrja og enda mál mitt á því, að það plagg sem hér liggur fyrir hugnast mér í öllum meginatriðum þó að ég telji okkur ekki tilbúin í þetta tiltekna atriði, bara svo það sé algjörlega á hreinu.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir góð orð í garð landsbyggðarinnar. Ég er algjörlega sammála henni í því að höfuðborgin á náttúrlega heilmikið undir landsbyggðinni þar sem náttúruauðlindir okkar og gjaldeyrissköpun fer fram þar að mjög miklu leyti. Þannig eigum við að geta átt þessi samskipti. Landsbyggðarfólk er háð höfuðborginni hvað varðar þjónustu og höfuðborgin er háð landsbyggðinni hvað varðar auðlindir, gjaldeyrissköpun og annað slíkt. Þannig eigum við að hugsa þetta.

Svo það sé alveg á hreinu líka vildi ég að hugmynd stjórnlagaráðsins færi óbreytt í þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess lýðræðislega ferlis sem þar hefur farið fram. Þannig hef ég talað um þetta mál á þinginu.

Eftir sem áður hef ég alltaf goldið varhuga við þessu tiltekna atriði vegna þess að ég vildi óska þess að við þyrftum ekki að vera með neinar girðingar eða neitt vegna þess að hugsun okkar væri þannig. Ég vildi óska þess að við værum komin svo langt í jafnréttishugsun okkar á öllum sviðum, hvort sem það eru kynin, minnihlutahópar sem eiga við einhvers konar fötlun að stríða eða fámennir hópar sem búa úti um landið. Því miður er það ekki svo gott og þess vegna tel ég að við þurfum að skoða þetta mjög vel.

Ég er ekki viss um að það kerfi sem kemur fram í 39. gr. sé það rétta, ekki heldur kosningakerfið. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki lausnina, því miður, en ég held að það sé nákvæmlega það sem við erum að fara að gera, (Forseti hringir.) við erum að fara í það ferli að skoða hvaða leið er best.