141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:05]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér nákvæmlega útfærsluna á nálægðarreglunni en við höfum rætt það heilmikið. Ég hef setið í félags- og tryggingamálanefnd og síðar velferðarnefnd, þar tókum við meðal annars þátt í því að færa stóran málaflokk á milli stjórnsýslustiga, frá ríkinu og yfir til sveitarfélaganna. Það var ekki síst gert með þeim rökum að það væri eðlilegt að sú þjónusta væri nálægt fólkinu þannig að þar eru rökin fyrir því að þessi málaflokkur var fluttur. Við erum að vinna að flutningi frekari verkefna til sveitarfélaganna sem teljast til nærþjónustu eins og málefni aldraðra. Ég held að það sé gert víðar en bara í löndum Evrópusambandsins. Ég get sagt að í mörgum málum, t.d. í byggðamálum, ættum við virkilega að líta til Evrópusambandsins sem er með alvörubyggðastefnu. Ég held að þar séum við ekki svikin af fyrirmyndinni.