141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:06]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jónínu Rós Guðmundsdóttur fyrir ræðuna. Af því að hún nefndi í andsvörum áðan að hún væri mjög sátt við þetta plagg langar mig að víkja aðeins að 57. gr., með leyfi forseta:

„Lagafrumvarp má ekki samþykkja fyrr en eftir minnst tvær umræður á Alþingi.“

Ég þekki hv. þingmann að góðu einu, hef starfað með henni í félags- og tryggingamálanefnd og nú aðeins í velferðarnefnd og veit að hún leggur mikið upp úr því að vanda vinnubrögð. Hv. þingmaður hefur margoft rætt það í nefndinni þar sem ég hef starfað með henni. Mig langar að hún segi aðeins álit sitt á ákvæðinu í þessari grein vegna þess að sérfræðihópurinn sem skoðaði frumvarpið leggur til að því verði breytt. Mig langar að vitna í skilabréf lögfræðingahópsins, með leyfi forseta:

„Í 57. gr. er gert ráð fyrir því að umræðum um lagafrumvörp sé fækkað úr þremur í tvær. Í ljósi þess að valkosti í bréfi stjórnlagaráðs 11. mars um að frumvörp fari ekki til nefndar fyrir 1. umræðu, hefði þurft að endurskoða þessa tillögu með hliðsjón af markmiði stjórnlagaráðs um vandaða lagasetningu.“

Mig langar að fá álit hv. þingmanns á þessu af því að ég veit að henni er mikið í mun að við vöndum okkur í þessu húsi.