141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:10]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Það er oft tímahrak, álag, fjöldi mála á dagskrá og álagstími í þinginu sem hv. þingmaður þekkir enn betur en ég. Ég hef samt sem áður tvisvar sinnum komið inn í þennan tíma. Ég þekki asann. Það þarf að ræða þung og erfið mál og ég spyr nú: Verður ekki ákveðin freisting að fara hratt yfir sögu ef það er hægt? Það er það sem ég hef áhyggjur af. Er þetta ekkert hættulegt? Þarf ekki stundum að hafa pínulítið vit fyrir þeim sem eru hér?

Þetta á ekkert bara við um núverandi ríkisstjórn, þetta á við um þær ríkisstjórnir sem munu koma og þá sem fara með völdin, meiri hlutann á hverjum tíma. Það er það sem ég er að spyrja hv. þingmann um. Ég veit að hún vill einlæglega vanda sig og mér finnst að þetta eigi ekki að vera til staðar. Mig langar að fá álit hv. þingmanns á þessu.