141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:33]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég komst nú ekki til þess áðan, en hefði átt að gera, að segja að það er ekki eins og við séum að ljúka þessari umræðu hér í dag. Við erum að hefja hana, þetta er 1. umr. og við höfum farið yfir það hér hverjar hugmyndir stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eru varðandi framhald vinnunnar. Ég vona að hv. þingmaður sé mér sammála um að mikilvægt sé að hver einasti þingmaður komi efnislega að vinnu við þetta frumvarp nú þegar það er hér komið formlega inn í þingið.

Takmörkun á kosningarrétti. Einu sinni var það þannig að þetta var takmarkað eftir kyni. Það eru tvö ár þangað til við fögnum 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna á Íslandi. Einu sinni var þetta takmarkað við það að menn væru fjár síns ráðandi, að menn væru bændur og svo framvegis. Við þurfum að horfa til þess hvernig kosningarréttur er takmarkaður. Það er ekki eðlilegt að takmarka hann að mínu viti, en það er hægt að beita öðrum ráðum.

Nú er tími minn útrunninn, (Forseti hringir.) herra forseti, en ég vísa til norska fyrirkomulagsins sem ekki hefur verið talið ólýðræðislegt í þeim efnum. Það eru til mýmörg dæmi, en ég vænti þess (Forseti hringir.) að Feneyjanefndin fari sérstaklega yfir þetta eins og hún hefur verið beðin um.