141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:37]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að skynsamlegast hefði verið fyrir okkur að reyna að takast á við tiltekna afmarkaða þætti sem hefði verið ástæða fyrir okkur að breyta í núgildandi stjórnarskrá. Ég nefndi hérna áðan í ræðu minni málefni sem snúa að forseta Íslands og ég vakti athygli á því að forseti Íslands hefði sjálfur komist að þeirri niðurstöðu að sú grein sem fjallar um stjórnarmyndunarviðræður leiði til þess að atbeini forsetans að þessu máli verði miklu meiri heldur en nokkru sinni áður. Ég hef mjög verulegar og miklar athugasemdir við þetta ákvæði frumvarpsins. Ég hefði frekar haldið að þingmenn hefðu viljað styrkja stöðu þingsins frekar en að búa til einhverja sérstaka aðkomu forsetans, að það sé forsetinn sem geri tillögur til þingsins um kjör forsætisráðherra. Ég veit að í núgildandi stjórnarskrá er talað um atbeina forsetans að stjórnarmyndunarviðræðum, en það er einmitt hlutverk forsetans sem ég tel að sé mjög knýjandi fyrir okkur að taka til endurskoðunar í stjórnarskránni.

Síðan er annað. Auðvitað fallast allir á það að það er meiri hlutinn sem fer með öll ráð í okkar samfélagi, í lýðræðislegu samfélagi, þannig er það a.m.k. á þinginu. En það er líka svo að menn hafa ævinlega bent á að þrátt fyrir það geti það verið ólýðræðislegt ef meiri hlutinn beitir minni hlutann ofríki. Þetta er mjög þekkt t.d. í stjórnmálafræðiumræðunni, mjög þekkt í félagsvísindaumræðunni og það sem ég óttast núna er að það kunni að leiða til þess að ef menn taki ekki tillit til sjónarmiða 43% þjóðarinnar, þar með getum við sagt mjög stórs hluta landsbyggðarinnar varðandi þessa spurningu um jöfnun atkvæðisvægis, muni þingið hér beita ofríki (Forseti hringir.) meiri hlutans.