141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:42]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ræðu. Eins og fram kom eru 15 mínútur fljótar að líða og tvær mínútur enn fljótari þannig að ég ætla að vinda mér í það sem mig langaði að ræða við hv. þingmann. Það er kosningagreinin eða 39. gr.

Við vorum á fundi í atvinnuveganefnd í morgun að fjalla um frumvarp til laga um skipan ferðamála. Þar kom inn fulltrúi frá höfuðborginni og taldi það mjög mikilvægt að í einhverjum samráðshópi væri fulltrúi höfuðborgarinnar á móti sex eða átta markaðsstofum eða fleiri á landsbyggðinni. Okkur fannst það fullkomlega eðlilegt. Á sama hátt finnst okkur sem erum fulltrúar af landsbyggðinni hér á þingi það líka fullkomlega eðlilegt að það séu fulltrúar frá landsbyggðinni. Ég tek undir með þingmanninum um áhyggjur hans af afleiðingum þessa frumvarps ef af lögum yrði um breytingarnar á kosningafyrirkomulaginu, ég tók það nú aðeins til í mínu máli, tel að þar séu ófærar tillögur og að aðrar þurfi að fara.

Þingmaðurinn benti einmitt á það að til stjórnlagaþingskosninganna voru aðeins tveir fulltrúar af 25 af landsbyggðinni. Má spyrja sig hvort þeir verði nokkuð fleiri hlutfallslega af þeim landslista sem á að velja 33 þingmenn.

Ég nefndi í ræðu minni það sem ég hef heyrt um norska kerfið og verð að viðurkenna að ég þekki það nú ekki til hlítar að þar sé tekið blandað vægi fjölda einstaklinga og af stærð landsvæðis. Skaftárhreppur er með 7% af Íslandi undir 480–490 íbúa. Í núverandi kosningafyrirkomulagi er ólíklegt að það séu margir þingmenn (Forseti hringir.) þaðan, einfaldlega vegna fámennis. Við breytinguna, ef eingöngu er miðað við þetta og það verða eingöngu 11 þingmenn af landsbyggðinni, telur þingmaðurinn líklegt að (Forseti hringir.) sjónarmið af stórum landsvæðum á Íslandi og fulltrúar þaðan séu líklegir til þess að verða valdir til þingsins?