141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:47]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið og tek undir það að fullu leyti. Ég hef miklar áhyggjur af þessu. Ég vildi aðeins spyrja hv. þingmann út í þær væntingar sem hann hefur til þessarar vinnu. Nú er málefnaleg umræða hafin og það er vel. Ég hef til að mynda kallað eftir því að stjórnarliðar rökstyðji leiðina í 39. gr. og skynsemina í henni. Margir hafa bent á, eins og hv. þingmaður, að landsbyggðarþingmenn gætu orðið 11. Þóroddur Bjarnason og fleiri hafa líka talað í þá veru.

Ég hef hins vegar orðið annars áskynja. Síðast í andsvari við mig vísaði formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til þess að þær tillögur sem ég lagði fram og sagði að þyrfti að skoða og breyta væru léttvægar og að að hennar mati stæði allt í þessu, menn þyrftu ekki að hafa neinar áhyggjur. Ég hef fengið það á tilfinninguna að formaður nefndarinnar hafi (Forseti hringir.) ekki mikinn raunverulegan áhuga á að hlusta eftir tillögum okkar heldur sé þetta fyrst og fremst umræða til að koma sjónarmiðunum fram og geta sagt (Forseti hringir.) að skoðanaskiptin hafi átt sér stað. Ég spyr hv. þingmann hvaða væntingar hann hafi til áframhalds þessarar vinnu í þinginu.