141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

staða þjóðarbúsins.

[13:42]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að efna til þessarar umræðu um stöðu þjóðarbúsins og þakka jafnframt forsætisráðherra fyrir sýn hennar á málið. Ég tel að staða íslenska þjóðarbúsins sé býsna alvarleg, þ.e. í þeim skilningi að ef ekki verður gripið til réttra ráðstafana getur stefnt í mjög mikið óefni. Hins vegar eru góðu fréttirnar þær að ef rétt er haldið á málum getum við Íslendingar unnið okkur mjög hratt út úr þessari stöðu, út úr höftunum, út úr þeirri stöðnun sem hefur verið viðvarandi frá því þessi nýja ríkisstjórn tók við, sem hefur ekki sýnt langtímahagvexti neinn alvörustuðning. Ekki hefur verið unnið með þeim sem hafa viljað koma hingað og fjárfesta á Íslandi.

Sú staða sem dregin er upp, og hæstv. ráðherra og málshefjandi hafa komið inn á, og snýr að gjaldeyrishöftunum er þessi: Við Íslendingar munum ekki framleiða þann gjaldeyri sem þarf til þess að standa í skilum við þær skuldbindingar sem þjóðarbúið hefur gengist undir. Það er staðan. Út af fyrir sig er rétt að ríkið hefur ekki tekið á sig allar þessar skuldbindingar en sú staðreynd að þjóðarbúið er með þessar kröfur á sig er mjög alvarleg. Þess vegna skiptir höfuðmáli að vel takist til við að ljúka uppgjöri bankanna og að sjálfsögðu er það óþolandi staða að nú fjórum árum eftir hrun sé fullkomin óvissa um það í hvaða höndum allar stóru fjármálastofnanirnar á Íslandi eru. Hverjir eru eigendur þeirra? Þetta er eins óheilbrigt ástand í einu landi og það getur helst orðið. Hverjir eiga fjármálakerfið á Íslandi? Þetta er auðvitað algjörlega óásættanleg staða, fullkomlega.

Leiðin fyrir okkur Íslendinga er að örva fjárfestingar, auka framleiðni. (Forseti hringir.) Það eru tækifæri til sóknar í öllum hefðbundnu framleiðslugreinunum og við getum dregið hingað heim nýjar fjárfestingar á nýjum sviðum. Við þurfum að framleiða okkur út úr þessari stöðu.