141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

staða þjóðarbúsins.

[13:49]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Margir gerðu lítið úr skuldavandanum fyrir hrun og gera enn. Fyrir hrun prentuðu bankarnir peninga með útlánum sem þeir gerðu að innstæðum. Útlánin voru notuð til að fjármagna kaup á hlutabréfum og fasteignum og verð þeirra hækkaði með aukinni peningaprentun. Við bankahrunið féll verð á hlutabréfum og fasteignaverð lækkaði ásamt því að útlán fóru í vanskil. Nafnverð verðbréfanna á bak við upphaflegu útlánin lækkaði hins vegar lítið og hrægammasjóðir keyptu bréfin á hrakvirði.

Í fjögur ár hafa stjórnvöld afneitað skuldavandanum. Á meðan hafa hrægammasjóðir fengið sem nemur 50% af þjóðarframleiðslu í erlendum gjaldeyri úr þrotabúunum. Hrægammasjóðir vita að stjórnvöld geta stoppað greiðslur úr búunum. Þeir hafa því markvisst bætt samningsstöðu sína með kaupum á kröfum í þrotabú, lánveitingum til fyrirtækja, ásamt uppkaupum á ríkisskuldabréfum og fasteignum.

Herra forseti. Það er ekkert um að semja við hrægammasjóði. Við framleiðum okkur ekki út úr vandanum nema með því að ganga á auðlindir komandi kynslóða. Gjaldeyrisöflun þjóðarinnar dugar vart til að borga af núverandi skuldum, hvað þá af skuldabréfi í erlendum gjaldeyri.

Aðeins ein leið er fær. Leggja verður háan skatt á eignir þrotabúanna í gegnum til dæmis upptöku nýkrónu. Þannig verður til gjaldeyrir til að hleypa restinni út og tryggja lífskjör almennings.

Herra forseti. Hugsum í lausnum sem gefa þjóðinni von.