141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

staða þjóðarbúsins.

[13:51]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það var tvennt sem olli mér verulegum áhyggjum í ræðu eða svarræðu hæstv. forsætisráðherra. Annars vegar mantran um að hér gangi allt vel og tiltekin sjónarmið eru höfð frammi um að hagvöxtur sé á bilinu 2–3,5% meðan allir vita að við þyrftum að hafa a.m.k. 5% hagvöxt til að skila nægilega miklu til að standa undir þeim skuldbindingum sem við erum með. 25% aukning fjárfestinga í atvinnulífi, en frá hvaða tölu? Lægstu fjárfestingu Íslandssögunnar. Því miður er ekkert að marka þetta og ég hef áhyggjur af því.

Hins vegar hef ég áhyggjur af því sem kom fram í svarræðu hæstv. forsætisráðherra, léttúðinni yfir skuldastöðunni, að vilja ekki gera sér grein fyrir hver skuldastaðan er. Kannski er það að hluta til vegna þess að Seðlabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa verið að endurmeta skuldirnar látlaust og við höfum aldrei fengið rétt svör, eins og málshefjandi, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom inn á í inngangi sínum. Það er auðvitað alveg ótrúlegt að við skulum ekki hafa þær tölur. En mér finnst mun alvarlegra að léttúð hæstv. forsætisráðherra gagnvart þessu skuli vera þvílík að segja að þetta mál sé meira og minna allt í höndum Seðlabankans og við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því. Hvar er hin pólitíska forusta?

Í ummælum sem höfð eru eftir hv. þm. Árna Páli Árnasyni í blaðaviðtali segir hann, með leyfi forseta:

„Að mínu viti hefur umgjörðin í tengslum við afnám gjaldeyrishafta aldrei verið hluti af peningalegu sjálfstæði Seðlabankans. Þegar ég var efnahags- og viðskiptaráðherra var forustan um afnám hafta á minni hendi. Þannig að það er alveg skýrt að það er hin pólitíska forusta sem hefur valdið í þessum efnum.“

Það er akkúrat það sem skortir. Tækifærin eru sannarlega til staðar á Íslandi, þau hafa hins vegar ekki verið nýtt síðustu árin. Þau gefa okkur þá von að við getum komist út úr þessu. Það þarf að taka annars vegar á skuldavandanum með hörku og hins vegar að setja (Forseti hringir.) þá framleiðni í gang sem er möguleg á landinu og byggir á þeim tækifærum sem íslenskar auðlindir og mannvit gefa tilefni til.