141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

staða þjóðarbúsins.

[14:02]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka góða umræðu. Ég var þó misánægður með svör stjórnarliða í dag. Ég get tekið undir ræðu hv. formanns efnahags- og skattanefndar, Helga Hjörvars, en aðrar ræður stjórnarliða fjölluðu um eitthvað allt annað en við ættum að vera að ræða. Þar voru furðuyfirlýsingar á borð við það hjá hæstv. forsætisráðherra að við ættum ekki við skuldakreppu að stríða. Á sama tíma gerir íslenska ríkið erlendan gjaldeyri upptækan til að það og aðrir aðilar geti staðið straum af erlendum skuldum.

Enn er talað um hagvöxtinn sem varð til vegna falls gjaldmiðilsins og notkunar á séreignarsparnaði og tímabundinna, vonandi ekki svo tímabundinna, makrílveiða. Fjárfesting hefur verið í sögulegu lágmarki. Svo kemur hæstv. forsætisráðherra og talar um sérstaka fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sem áður voru bara hefðbundin verkefni ríkisins og dugar ekki einu sinni til að ná fjárfestingu hins opinbera upp í eðlilegt horf við þessar aðstæður.

Svo er enn og aftur talað um tekjujöfnuð. Hvernig varð hann til? Með því að tekjur allra lækkuðu og rýrnuðu. Atvinnuleysið sem enn er að minnka, atvinnuleysistölur fara jú lækkandi, en hafa orðið til ný störf? Nei, það vantar nú eitthvað upp á það. Á sama tíma verður ekki til sá gjaldeyrir sem við þurfum til að standa straum af erlendum skuldum þjóðarbúsins. Það er hin einfalda staðreynd sem við stöndum frammi fyrir. Við þurfum að bregðast við því. Þess vegna þarf skýra sýn frá hæstv. forsætisráðherra um hvernig eigi að bregðast við þeim vanda. Ég er þeirrar skoðunar að hægt sé að bregðast við honum með því að framleiða aukinn gjaldeyri og með því að grípa inn í það ferli sem nú á sér stað og er líklegt til þess að auka enn á útgreiðslur í erlendri mynt. Sé ekki brugðist við með mjög afgerandi hætti er staðan ekki góð. Þess vegna þurfum við forustu frá hæstv. forsætisráðherra í þessum efnum.