141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:31]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason hefur mest fjallað um er 111. gr., fullveldisframsalið. Hún er tvímælalaust með mikilvægari ákvæðum þessara tillagna. Um er að ræða verulega breytingu frá núgildandi stjórnskipun og mjög mikilvægt að það tiltekna atriði fái góða umræðu vegna þess að til dæmis í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu fékk það tiltölulega litla umræðu. Ég verð að segja alla vega fyrir mitt leyti að mér finnst tillagan eins og hún er lögð fyrir þingið, reyndar með ákveðinni breytingu sérstaklega í greinargerð frá lögfræðingahópnum, ófullnægjandi.

Ég vil þakka hv. þm. Ásmundi Einari Davíðssyni fyrir að vitna í það sem ég sagði fyrr í umræðunni um að það þyrfti að skýra vel hvernig taka ætti á mismunandi stigum fullveldisframsals, ef svo má segja. Það eru allir sammála um að ákvarðanir sem fela í sér fullveldisframsal geta verið misviðamiklar. Sumar geta falið í sér lítið framsal, t.d. þegar flugmálastjórn Evrópu er falin sektarheimild á tilteknu sviði, eins og við höfum rætt oft áður. Svo getur aftur verið um verulega mikið framsal fullveldis að ræða í öðrum tilvikum eins og til dæmis væri ótvírætt um að ræða ef Ísland gengi í Evrópusambandið. Ég vil í rauninni fyrst og fremst fá tækifæri til þess að inna hv. þingmann eftir því atriði, þ.e. hvort hann hefur mótað sér einhverjar nánari hugmyndir um hvar mörkin eiga að liggja í þessu sambandi. Ég geri mér grein fyrir því (Forseti hringir.) að auðvitað er það atriði sem verður að þróast meðan málið er í málsmeðferð á þinginu en ég vildi kalla nánar eftir því hvort hv. þingmaður hefur nú þegar mótað sér afstöðu (Forseti hringir.) til þess hvar mörkin liggja milli lítils framsals, meðal framsals og (Forseti hringir.) mikils framsals.