141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:46]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ræðu hans. Það eru ótrúlega margir þættir í þessu frumvarpi sem þarf að ræða og skoða áður en lengra er haldið með málið og fullveldisframsalið er einn sá stærsti.

Það er rétt sem þingmaðurinn fór yfir að lögfræðihópurinn gerði breytingar á þessu ákvæði, að meiri háttar valdaafsal til erlendra stofnana þyrfti að fara í þjóðaratkvæði en minni háttar ekki. Það breytir því ekki að greinin er mjög opin og óvarin gagnvart því ferli sem þessum málum er ætlað í frumvarpinu. Þetta er svipað því og að breyta stjórnarskránni, vegna þess að samkvæmt þessu getur meiri hluti þingmanna knúið fram niðurstöðu, segjum t.d. bara í ESB-umsóknarmálinu, og sent það svo í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Það getur orðið meirihlutastemning í samfélaginu fyrir því að fara í einhverjar svona aðgerðir og það tel ég ekki nógu gott, það verði að verja þetta á einhvern hátt.

Því langar mig til að spyrja þingmanninn: Telur hann að heillavænlegra að breyta þessu ákvæði þannig að við færum sömu leið og Norðmenn þar sem þarf aukinn meiri hluta þingmanna til að geta farið þessa leið? Eða á hvern hátt getum við sett ákvæði í stjórnarskrá til að verja fullveldi okkar gagnvart kannski ráðríkum meiri hluta hverju sinni?