141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:49]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil benda þingmönnum á bls. 247 í greinargerðinni þar sem farið er yfir hversu vel þetta er verndað bæði í Noregi og Danmörku.

Með leyfi forseta, langar mig til að lesa upp úr greinargerðinni:

„Í báðum þessum ríkjum er áskilið að aukinn meiri hluti þjóðþinganna samþykki framsalið, 5/6 atkvæða í Danmörku og 3/4 í Noregi. Í Noregi er enn fremur gerð krafa um að 2/3 þingmanna séu viðstaddir atkvæðagreiðslu. Náist ekki tilskilinn meiri hluti á þingi telst tillagan fallin í Noregi, en í Danmörku er þá heimilt að vísa málinu til þjóðaratkvæðis, ef einfaldur meiri hluti hefur samþykkt tillöguna.“

Ég talaði um það í gær í umræðunni að við ættum ekki að vera að finna upp hjólið og það er gott að bera sig saman við nágrannalöndin sérstaklega, en ég hef þó gagnrýnt að hér sé verið að sækja ákvæði til Venesúela og Brasilíu. En hér höfum við dæmi frá nágrannaþjóðum okkar sem við höfum sótt mjög okkar löggjöf til í tímanna rás, náttúrlega ekki síst núgildandi stjórnarskrá sem við fengum frá Danmörku, og þetta eigum við að setja inn. Það á ekki að vera auðvelt að framselja vald til erlendra stofnana, ekki frekar en að það á að vera auðvelt að breyta stjórnarskránni.

Í framhaldi af þessu langar mig að spyrja þingmanninn: Hvor leiðin hugnast honum, 5/6 atkvæða þingmanna eða 3/4 eins og í Noregi, í stað þess ákvæðis sem lagt er til í frumvarpinu?