141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:33]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Það eru nokkur atriði sem væri fróðlegt að koma inn á. Mig langar að velta því upp hvort hv. þingmaður hafi lesið eða séð vangaveltur dr. Þórodds Bjarnasonar sem er stjórnarformaður Byggðastofnunar og hefur fjallað um að svo kunni að fara að nái þessar tillögur fram að ganga muni þingmönnum á landsbyggðinni fækka niður í 11 talsins.

Hann veltir því líka upp að töluverðar líkur séu á því að taki frambjóðandi lítilla dreifbýlla svæða upp þau málefni séu yfirgnæfandi líkur á að honum verði refsað á höfuðborgarsvæðinu. Þetta sáum við til dæmis í umræðunni um jöfnun raforkukostnaðar þar sem fámenn dreifbýl svæði tókust á við massann á höfuðborgarsvæðinu. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af þessu atriði?

Síðan þegar kemur að þjóðaratkvæðagreiðslum almennt langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann sé því fylgjandi að undanskilja ákveðin atriði frá þjóðaratkvæðagreiðslu, t.d. þjóðréttarskuldbindingar.

Þriðja spurningin sem mig langar að koma með til hv. þingmanns snýr að náttúruauðlindum. Hv. þingmaður talar um að náttúruauðlindir séu nú þegar að komast í erlenda eigu, að erlendir aðilar séu að eignast aðgang að laxveiðiám o.s.frv. Telur hv. þingmaður að í 34. gr. þar sem fjallað er um náttúruauðlindir sé girt fyrir það að erlendir aðilar geti fengið afnotarétt af íslenskum auðlindum? Það er ekkert í þessari 34. gr. sem girðir fyrir það að erlendir aðilar geti fengið allan aðganginn að til að mynda sjávarútvegsauðlindinni, spænskir togarar eða breskir. Telur hv. þingmaður ekki eðlilegt að takmarka það með einhverjum hætti í 34. gr. þannig að við náum akkúrat því sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni áðan?