141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:42]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég var lengi þeirrar skoðunar að landið ætti að vera eitt kjördæmi vegna þess að eingöngu þannig væri hægt að tryggja jafnt vægi atkvæða. Síðan þá hef ég fræðst og lært mjög mikið um málið, ekki síst eftir að hafa komið inn á þing. Nú er komin fram tillaga í frumvarpi stjórnlagaráðs um nokkuð sem það kallar kjördæmavarið landskjör þar sem gengið er fyllilega til móts við að það geti verið til kjördæmi en vægi atkvæða samt jafnt. Það finnst mér mjög flott hugmynd og þess virði að fari hér í gegn vegna þess að vægi atkvæða á að vera jafnt en ég er líka þeirrar skoðunar að það sé hugsanlega heppilegt að hafa kjördæmi. Það er vitað að hagsmunir sumra landshluta eru sérstakari en annarra. Við verðum að viðurkenna það.

Hvað varðar jafnt vægi kynja er alveg rétt að þegar handvalið er inn á lista með þeim hætti sem gert er víða, þ.e. sætum skipt til helminga á milli kynja, getur það hugsanlega gengið gegn lýðræðinu og lýðræðislegri niðurstöðu sem hefði orðið á annan veg. Menn kalla þetta jákvæða mismunun. Hún hefur þurft að eiga sér stað víða um heim, sérstaklega á sínum tíma í Bandaríkjunum þar sem blökkumenn fóru mjög halloka gagnvart öðrum. Það ástand er ekki eins alvarlegt á Íslandi og ég set alltaf spurningarmerki við þetta atriði. Ef menn vilja fara þessa leið þurfa menn að rökstyðja það vel og gera breytingarnar mjög varlega.

Á sínum tíma var mikið ójafnvægi kynja í íslenskum stjórnum. Mjög fáar konur tóku þátt í stjórnmálum. Það hefði mátt réttlæta þetta þá en staðan er ekki svoleiðis í dag. Ég bendi á að þar sem persónukjör er við lýði hefur niðurstaðan orðið sjálfvirkt þannig að kynjahlutfallið er nánast jafnt.

Ég mun svo leitast við að svara hinum spurningum þingmannsins í seinni umferðinni.