141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:47]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ábendingum hv. þm. Þórs Saari komu ágætisatriði fram. Hann vakti athygli á því að það þyrfti að auka vald sveitarstjórna landsins sem ég held að sé rétt. Hann vakti athygli á því að æskilegt væri að taka upp persónukjör. Það kann að vera flókið og ekki alveg í stíl við marga hluti. Hann talaði um að verið væri að selja auðlindirnar. Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni, menn eru að selja orku úr auðlindunum, það er mikill munur. Þetta ber þó allt að þeim brunni að langan tíma þarf og miklu lengri en ætlað er af hæstv. ríkisstjórn til að ljúka þessu máli. Til að mynda þátturinn um aukið vald sveitarstjórna, menn hrista það ekkert úr erminni á nokkrum vikum eða mánuðum. Það þarf að halda ótal fundi um allt land með sveitarstjórnarmönnum sjálfum, ef ekki er miðað við að ákvörðun sé tekin í 101 Reykjavík.

Hv. fyrrverandi forsætisráðherra heitinn, Bjarni Benediktsson, hafi margoft orð á því að aldrei ætti að vera höfuðborgarmaður í fjárlaganefnd vegna þess að þar var þá vélað um ýmsa hluti sem nýttust í stóru og smáu um land allt. Hann sagði: Reykjavík hefur slíkt forskot á öllum þáttum menningar, heilbrigðisþjónustu, skólakerfis og öllum þáttum þjóðlífsins að það þarf að finna jafnvægi þar sem hlutur landsbyggðarinnar er virtur. Það er ekki gert með því að auka rétt sex manna fjölskyldu umfram fjögurra manna fjölskyldu, svo einfalt er það.

Það (Forseti hringir.) sem hv. þingmaður vék að er athyglisvert en þarf langan tíma og er æskilegt að taka tíma í.