141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:53]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Hvað varðar leigu á auðlindum hefur komið skýrt fram í umfjöllun undanfarin tvö ár að heppilegast er til dæmis að líta á þá auðlind sem jarðvarminn er sem námu en ekki sem endalaust endurnýjanlega auðlind, því það er verið að ofnýta jarðvarmann þannig að hann nær ekki að endurnýja sig. Slík ofnýting mun gera auðlindina að engu á 30–60 ára tímabili. Þess vegna þurfum við að vara okkur á þessu.

Hvað varðar lengri tíma benti ég á það áðan að þetta frumvarp hefur verið í smíðum mjög lengi. Það byggir á gögnum sem voru til enn fyrr. Hér er ekkert sem er dregið upp úr hatti núna. Þetta snýst að stórum hluta um að auka lýðræðið og valddreifingu um allt land. Það er af hinu góða. Ég efast ekki um að sveitarfélögin muni taka fegins hendi þeim ákvæðum sem (Forseti hringir.) hér eru um að þau fái meiri stjórnarskrárbundinn rétt.