141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:54]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Hér er rætt mál sem er gríðarlega mikið að vöxtum og ekki að undra þótt skoðanir séu skiptar þegar við ræðum sjálf grundvallarlög lýðveldisins. Þrátt fyrir orð hv. þm. Þórs Saari um að þetta mál hafi verið mjög lengi í smíðum vil ég engu að síður hvetja menn til varkárni í slíkum yfirlýsingum, ekki síst í ljósi þess hvernig tilurð frumvarpsins var. Ef við horfum yfir þá sögu hvernig til málsins var stofnað var það gert á miklum umbrotatímum í íslensku þjóðlífi. Við lendum, því miður segi ég, í því að kosningar til stjórnlagaþings sem átti að vinna að þessu eru dæmdar ógildar af Hæstarétti og þá er farin önnur leið til að halda málinu áfram. Til viðbótar getum við sagt að það leið heill starfsvetur hér á þingi áður en þingnefndin sem fékk þetta mál til umfjöllunar rýndi þá afurð sem stjórnlagaráð skilaði til þingsins. Þessa þætti í vinnunni ber að taka alvarlega og horfa til. Mér er nákvæmlega sama þó að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir hristi hér hausinn úti í sal og glotti yfir þeim orðum sem ég viðhef um aðdraganda málsins. Ég tel að í því embætti sem hv. þingmaður gegnir beri henni að hlýða á röksemdir með og á móti, þótt hún sé ekki sammála þeim, með stakri rósemd og hugprýði og vænti þess að svo verði, en setji ekki upp þann þóttasvip sem mér þykir einkenna marga stjórnarþingmenn við umræðu þessa máls, svo það sé sagt. Í stað þess að gjamma í hliðarsölum væri nær að þingmaðurinn sæti í sal Alþingis og tæki þátt í þeirri umræðu sem hér fer fram.

Það frumvarp sem hér liggur fyrir er mikið að vöxtum og í því eru margvísleg álitaefni sem vert er að gefa ríkan gaum og væri æskilegt að hafa góðan tíma til þess. Ég vænti þess að sá tími gefist þegar málið kemur aftur til þingsins eftir öfluga vinnu þingnefndarinnar.

Ég vil sérstaklega ræða 39. gr. og þau ákvæði sem þar liggja fyrir um breytingar á kosningafyrirkomulaginu sem mælt er fyrir um í 31. gr. gildandi stjórnarskrár. Lokamálsgrein í 31. gr. núverandi stjórnarskrá hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Breytingar á kjördæmamörkum og tilhögun á úthlutun þingsæta, sem fyrir er mælt í lögum, verða aðeins gerðar með samþykki 2/3 atkvæða á Alþingi.“

Jafnframt er bundið í 2. mgr. 31. gr. að kjördæmin skulu vera sex.

Stjórnlagaráð var kvatt saman til fjögurra daga fundar til þess að bregðast við athugasemdum eða bréfum sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis sendi til ráðsins í febrúar 2012. Þar var fjallað um ýmsa þætti þessa máls, m.a. það sem kallað er kjördæmavarið landskjör í tillögunni. Sá einstaklingur sem var yfir þeim þætti vinnunnar við breytingar á 31. gr. stjórnarskrárinnar um kjördæmakosninguna og kjördæmaskipanina hefur lýst því yfir opinberlega að hann hafi mikinn fyrirvara á útfærslunni sem þar um ræðir og hann hafi óskað eftir því að alþjóðleg samtök sem sérhæfa sig í greiningu á þessum þáttum gæfu stjórnlagaráðinu álit sitt áður en tillagan færi frá ráðinu. Svo óheppilega vildi til að ekki var hægt að bíða eftir því.

Ég vil vekja athygli á því, forseti, að það segir einnig um þetta ákvæði á bls. 154 í greinargerð með frumvarpinu, sem er ærið ítarleg, að vissulega séu uppi mörg álitamál í þessu efni. Ég ætla, með leyfi forseta, að vitna orðrétt í greinargerðina:

„Ákvæðið um bundin sæti flækir kosningalög óhjákvæmilega og stríðir þar með gegn því sjónarmiði að þau séu sem auðskiljanlegust. Á hitt verður jafnframt að líta að sé landinu skipt upp í kjördæmi er vart rökrétt að kjördæmi geti verið næsta rúið þingsætum falli atkvæði með ólíklegum hætti.“

Ef þessi orð í sjálfri greinargerðinni gefa ekki fullt tilefni til að rýna þetta skynsamlega og að menn gefi sér þann tíma sem þarf til þess, veit ég ekki hvaða orð ætti að duga til að hvetja þingið til að vanda sig við að rýna þá tillögu sem hér liggur fyrir og kölluð er kjördæmavarið landskjör.

Það liggur einnig fyrir að með þessari breytingu er þinginu gefið allt vald til að skilgreina kjördæmin, ákveða tölur þeirra og þar með talið að skipta landinu ekki upp í kjördæmi heldur hafa það allt eitt kjördæmi. Það er ekkert sagt um kosningaaðferðina. Allir þættir varðandi persónukjörið eru óútfærðir. Allt sem skiptir máli um niðurröðun þingsæta er nú háð þinginu. Það sem hv. þingmenn Þór Saari og Pétur H. Blöndal ræddu hér í andsvörum, um jöfnun kynjahlutfallsins, er sömuleiðis óútfært og gengur í raun gegn þeim ákvæðum sem lúta að persónukjörinu. Það er leyst í þeirri umræðu með því að vitna til þess að til sé fyrirbæri sem heiti jákvæð mismunun. Þá kann maður að spyrja: Hefur þeirri hugsun, því hugtaki, verið beitt varðandi kosningalöggjöfina á Íslandi? Af hverju skyldu menn hafa af þessu töluverðar áhyggjur? Ég held að vert sé fyrir okkur að hugleiða það örlítið.

Ég var staddur á fundi í gær þar sem kynnt var úttekt Háskólans á Akureyri á starfsemi ríkisins í Norðausturkjördæmi. Í þeirri greiningu eru menn að skoða hvort grundvallarforsenda velferðarríkisins standist. Grundvallarforsenda velferðarríkisins er einfaldlega sú að allir þegnar ríkisins leggi til sameiginlegra sjóða eftir getu sinni en njóti þjónustu og stuðnings ríkisins eftir þörfum.

Hingað til hafa fyrri rannsóknir sýnt að íbúar landsbyggðarinnar fá allt að helmingi minni starfsemi og þjónustu fyrir skattana sína en íbúar höfuðborgarinnar. Með þessu er ég ekki að segja að höfuðborgin sé ill og landsbyggðin góð, það er langur vegur frá. Ég tel þvert á móti að þetta séu tvær einingar í sama potti sem verði að vinna saman. Það eru engin skil í mínum huga á því á mikilvægi hvors um sig. Ég tel hins vegar að ákveðin gjá hafi orðið til og sé að dýpka af ýmsum ástæðum og við eigum að reyna að leita allra leiða til að brúa hana.

Ég er þeirrar skoðunar að fyrirkomulagið sem leiðir þetta meðal annars af sér stafi af því að við séum enn þá bundin hugsun og verklagi sem fundið var upp og tíðkað á 19. og 20. öld þegar menn tóku meðvitaða ákvörðun um að byggja upp höfuðborg, miðstöð á sviði stjórnsýslu, fjármála, viðskipta, menntunar og því um líks. En við höfum ekki lagað okkur að þeim gríðarlegu breytingum sem hafa átt sér stað í íslensku samfélagi og raunar veröldinni allri sem gefa okkur möguleika á því að færa til verkefni í öllu þjóðríkinu, sama hvort það heitir Ísland eða ber eitthvert annað nafn. Þess í stað erum við enn þá bundin við þennan gamaldags og úrelta hugsunarhátt, og að sjálfsögðu eltir fólkið í landinu skattana sína þar sem þeir eru nýttir. Það vill svo til að það er í miðju höfuðborgarsvæðisins sem við getum kallað svo, og við höfum vissulega byggt upp saman, sem skattarnir eru nýttir í mestum mæli.

Í þeirri greiningu sem ég fékk kynningu á á fundinum sem ég vitnaði til kemur til dæmis fram að Austurlandið gamla greiðir meira en 40, 50% í skatta í sameiginlega sjóði en varið er til uppbyggingar eða þjónustu við íbúana á því svæði.

Því er haldið fram að þær einingar sem ríkissjóður heldur úti í heilbrigðisþjónustu séu svo óhagkvæmar að það taki því ekki að halda þeim gangandi, t.d. læknisþjónustu á Borgarfirði eystra þar sem búa örfá hundruð manna, það sé eðlilegt að íbúar þar þurfi að sækja upp á Hérað eftir lækni. Sem svar við þessu segi ég: Það kostar að halda úti byggð á Borgarfirði eystri. Það er ekkert sjálfgefið að við eigum endilega að færa hagkvæmnikröfuna sem gildir í stærstu einingunni út yfir alla starfsemi ríkisins í landinu. Ég fullyrði að þetta er meginástæðan fyrir þeirri niðurstöðu að bróðurpartur íbúa í landsbyggðarkjördæmunum svokölluðu hefur allan fyrirvara á tillögunum í þeirri mynd sem þær birtast okkur og skyldi engan undra.

Áður en við gerum breytingar á kosningafyrirkomulaginu og færum valdið til breytinga á því út úr stjórnarskrá Íslands inn í almenna löggjöf frá Alþingi, tel ég einboðið að íbúar landsbyggðarkjördæmanna geri kröfu til að sjá hvernig menn hugsa þetta til enda. Það er einfaldlega nóg komið. Þetta snýst ekki um það hvort sá sem hér stendur eða aðrir þingmenn sem sitja á löggjafarsamkundunni fyrir hönd þessara kjördæma haldi starfinu sínu eða ekki. Málið er einfaldlega miklu stærra og viðameira heldur en það.

Ég vil fullyrða að meðan þessu misvægi er ekki haggað, meðan allar tilraunir í þá átt eru kallaðar kjördæmapot, þröng hugsun kjördæmapotsins, að það sé ekki í þágu Íslands að íbúar sem hafa kosið sér búsetu hvort heldur er á Borgarfirði eystra eða í Borgarnesi eða guð má vita hvar, hafi ekki sömu tækifæri til þjónustu og sá sem býr við Breiðafjörðinn eða á höfuðborgarsvæðinu. Meðan þessu misvægi er ekki haggað verður engin sátt um þær tillögur sem hér liggja fyrir.

Ég sé að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hefur kvatt sér hljóðs, og því er ekki úr vegi að inna hv. þingmann eftir því hvernig það verk standi sem gefin voru fyrirheit um að vísa frumvarpinu til Feneyjanefndar Evrópuráðsins og hvernig miði þeirri vinnu hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins að búa málið í hendur þeirrar margrómuðu nefndar sem öllum líkindum mun gefa okkur leiðbeiningar og ráð um hvernig við tökum á ýmsum álitaefnum sem upp kunna að koma í umræðu okkar og vinnu á þingi, áður en við göngum frá því til endanlegrar afgreiðslu eða til 2. umr. í þinginu.