141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:13]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka enn og aftur andsvarið. Það er gott að geta orðið til gleði öðru hvoru. Ég vænti þess í ljósi orða hv. þingmanns að hún muni hún leggja sig mjög fram um að stýra umræðunni í nefnd sinni á þeim grunni sem liggur fyrir í frumvarpinu og fari í gegnum hverja og eina grein með fulltrúum allra flokka sem sæti eiga í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Ég held tæpast að hægt sé að skjóta sér á bak við það lengur að kröfur séu uppi um að vera á móti öllu málinu ef hv. formaður nefndarinnar stýrir verki hennar þannig að hún tekur hverja og eina grein fyrir sérstaklega og fer í gegnum hana, ræðir rök með eða á móti, ástæður til tillögugerðar o.s.frv.

Vonandi náum við fullkominni samstöðu um þá niðurstöðu sem kemur í þingsal fyrir 2. umr. Það er einlæg von mín að svo verði einfaldlega af þeirri ástæðu að hér ræðum við grunnlög landsins. Ég tel afar brýnt, ekki síst í ljósi þess ástands sem verkið er komið úr, að þingið sýni því þann sóma að standa vörð um það grundvallaratriði sem þarf að vera um stjórnarskrá landsins að um hana ríki sem mest sátt. Þar reynir á formann viðkomandi nefndar að leiða fram þá sátt í þeirri vinnu sem fram undan er. Ég ætla það af svörum hv. þingmanns að formaður nefndarinnar, hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, muni leggja sig alla fram um að ganga þannig til verka að allir flokkar og fulltrúar þeirra framboða sem í nefndinni starfa beri málið að endingu fram í þingsal.