141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:29]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var að mörgu leyti áhugaverð ræða. Hv. þingmaður sagði það sem allir vita að vísindi, m.a. hugvísindi, eru ekki óbrigðul. Það höfum við alltaf vitað. Einu sinni var að vísu til sú stjórnmálaskoðun, hún kallaðist sósíalismi, sem gekk út frá því að alla hluti væri hægt að skipuleggja vegna þess að mannleg breytni væri þannig að hægt væri að hafa áhrif á hana með skipulaginu. Sú hugmyndafræði hrundi þótt ekki vilji allir viðurkenna það, en hún gerði það engu að síður.

Það sem hv. þingmaður segir um að þekkingin sé ekki óbrigðul er auðvitað alveg rétt. En það sem ég áttaði mig ekki alveg á í því sem hv. þingmaður sagði var: Var hv. þingmaður þar með að undirbyggja með málflutningi sínum að það ætti að taka sem minnst mark á ábendingum fræðimanna vegna þess að fræði þeirra væru ekki algjörlega óbrigðul?

Það sem ég held að skipti miklu máli núna — ég hef tekið eftir því að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir dæsir alltaf óskaplega þegar henni mislíkar það sem menn segja — er þetta: Hér liggja fyrir gögn. Er ekki eðlilegast að meta þau að minnsta kosti á efnislegum forsendum og reyna að komast að einhverri niðurstöðu á þeim grundvelli? Er hv. þingmaður með málflutningi sínum að undirbyggja að sökum þess að einhver óvissa sé í fræðum lögfræðinga, félagsvísindamanna, hagfræðinga eða annarra getum við látið sem ekkert sé og því ekki hlustað á það sem þeir segja? Ég held að það sé skynsamlegast fyrir okkur að fara yfir þessi mál efnislega eins og okkur ber skylda til.

Einn af helstu talsmönnum stjórnlagaráðsins og sá háværasti hefur haldið því fram að það sé búið að loka fyrir alla frekari efnislega umræðu um þessi mál. Hv. þingmaður og aðrir hafa fagnað því að umræðan fari fram, en sú umræða verður auðvitað að leiða til einhvers, hún er ekki bara eitthvert snakk inn í þingtíðindi. Hugmyndin á bak við þessa 1. umr. er að kveikja á ákveðnum viðvörunarbjöllum þar sem það á við (Forseti hringir.) eða koma með röksemdir í málinu.

Ég vil að hv. þingmaður svari því hvort hugmyndin (Forseti hringir.) sé að taka raunverulegt mark á þeim efnislegu ábendingum sem hafa komið, eða var hv. þingmaður að undirbúa okkur undir það að ekki þyrfti að hlusta á þetta fólk vegna þess að fræðin væru ekki algjörlega ótvíræð? (Forseti hringir.)