141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:32]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nákvæmlega þetta sem við höfum haldið fram allan tímann. Alþingi hefur auðvitað síðasta orðið í þessu máli áður en málinu verður síðan vísað til þjóðarinnar. Það er það sem við höfum alltaf sagt í allri þessari umræðu. Hv. þingmaður sagði í fyrri ræðu sinni áðan, og ég tek undir það og skrifaði það niður til að halda því til haga fyrir sjálfan mig að minnsta kosti, að verkefnið væri að velja og hafna. Hv. þingmaður sagði enn fremur að við værum kosin til þess að leiða og ákveða. Það er alveg rétt, það er nefnilega kjarni málsins. Alþingi hefur gríðarlega mikið vald í þessum efnum.

Það sem ég tel að skipti öllu máli, ef menn vilja taka sjálfa sig hátíðlega og standa við þessi orð, er að viðurkenna þær tillögur sem liggja til grundvallar þessu frumvarpi. Þær verða auðvitað vegnar og metnar á grundvelli efnislegra forsendna. Við erum ekki bundin af niðurstöðu tillagna stjórnlagaráðsins í einu eða neinu ef okkur sýnist við frekari yfirferð, með fræðimönnum eða í umræðunni okkar á milli, að tillögurnar kalli á breytingar. Þetta finnst mér vera kjarni málsins. Þetta finnst mér það vinnulag sem við eigum að hafa.

Mér finnst að hv. þingmaður sé í öðru orðinu að taka undir með mér, en hún sé hins vegar að reyna að grafa dálítið undan trúverðugleika þeirra sem hafa gagnrýnt þessi mál á efnislegum forsendum, svo sem fræðimanna á sviði félagsvísinda sem hafa haft ákveðnar skoðanir á ýmsu sem gerðist í fortíðinni í undirbúningi þessa máls eða lögfræðinga sem hafa verið að benda á ýmsar stjórnskipulegar veilur í þessu frumvarpi. Þessum sérfræðihópi voru settar frekar þröngar skorður um það sem hann átti að skoða, þ.e. hvort væru innri mótsagnir í frumvarpinu, hvort við værum að fara að þeim skuldbindingum sem við höfum tekist á hendur í alþjóðlegum sáttmálum o.s.frv. Það gerði það auðvitað að verkum að möguleiki hópsins til að koma með ábendingar urðu miklu þrengri. Sérfræðihópurinn kom hins vegar með aðrar ábendingar sem skiptu máli í sérstöku skjali, sérstökum kafla.

Ég fagna því sem hv. þingmaður sagði og vænti þess að því verði fylgt fast eftir, að allar úttektir verði gerðar (Forseti hringir.) sem kallað verður eftir. Ég á von á því að kallað verði eftir býsna mörgum úttektum um þetta mikilvægasta mál á kjörtímabilinu.