141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að ræða og andsvar hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur, formanns nefndarinnar, gladdi mig mjög og vekur mér vonir um að við náum farsælli lendingu í þessu máli.

Það sem ég hef verið að benda á er mjög einfalt: Stjórnarskráin á að standa ein sér. Hún á ekki að þurfa atbeina ríkisvalds eða löggjafarvalds vegna þess að löggjafarvaldið er hluti af stjórnarskránni. Stjórnarskráin á því að standa ein sér og þess vegna hef ég lagt áherslu á að öllum atriðum þar sem vísað er í lög, eins og að tryggja umönnun barna með lögum eða eitthvað slíkt, verði breytt á þann veg að sagt verði beint út að börn eigi þennan rétt í stjórnarskránni. Síðan er það Alþingis, af því að alþingismenn sverja eið að stjórnarskránni, að fylla upp í stjórnarskrána með lögum ef þarf að kveða nánar á um eitthvað, en ekki þannig að stjórnarskráin verði ekki virk fyrr en Alþingi hefur sett tiltekin lög.

Ég geri ráð fyrir að nú geti ég eytt einhverjum vikum í að skrifa nýja greinargerð til nefndarinnar, kannski með öðrum þingmönnum, og komið með hugmyndir ásamt fjölmörgum öðrum sem verða skoðaðar, annaðhvort hafnað eða teknar inn með rökum væntanlega. Þá getum við farið að búa til virkilega góða stjórnarskrá því að það er mjög margt í þessum drögum sem er jákvætt, annað þarf að varast. Ég held að þegar við erum búin að liggja yfir þessu í góðan tíma, þingmenn allir, þá komi út úr því mjög góð og vönduð vinna.