141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

fjögurra ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011--2014.

171. mál
[16:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011–2014 frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Rétt er að taka fram að umhverfis- og samgöngunefnd afgreiddi málið frá sér síðastliðið vor en einhverra hluta vegna var það ekki afgreitt frá þinginu og kom aftur til okkar í haust. Var það þá afgreitt aftur frá nefndinni, en eins og sést í titlinum er um að ræða áætlun fyrir árið 2011, sem er liðið, og er ekki svo langt í að 2012 ljúki þannig að það er ekki seinna vænna að afgreiða áætlunina.

Hér er sem sagt um að ræða fjögurra ára framkvæmdaáætlun stjórnvalda og samhliða er lögð fram fjarskiptaáætlun til 12 ára, 2011–2022, og var fjallað saman um áætlanirnar í nefndinni. Grundvallarmarkmið fjarskiptaáætlunar eru hliðstæð markmiðum samgönguáætlunar sem var afgreidd frá þinginu á síðasta þingi en markmiðin eru aðgengileg og greið fjarskipti, hagkvæm og skilvirk fjarskipti, umhverfisvæn fjarskipti og örugg fjarskipti. Þau eiga að leggja grunn að framþróun íslensks samfélags.

Eins og við öll vitum hafa fjarskipti þróast afar ört síðasta áratuginn og síðustu ár og missiri. Sú þróun varðar bæði þær tæknilegu framfarir sem gera fjarskiptum, tölvutækni og fjölmiðlum kleift að renna saman sem og hið lagalega markaðsumhverfi fjarskipta sem taka meðal annars mið af samræmdum reglum Evrópusambandsins. Það er að sjálfsögðu áhersla meiri hlutans að regluverkið verði að fylgja tækniþróuninni og vera í stöðugri endurskoðun. Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að huga sérstaklega að stöðu fjarskiptamála í dreifbýli landsins og telur brýnt að ljúka grunntengingum um land allt og tryggja íbúum landsins nauðsynlega fjarskiptaþjónustu.

Öflug fjarskipti og góðar tengingar eru afar mikilvæg fyrir íbúa og fyrirtæki í dreifbýli ekki síður en í þéttbýli og eru oft forsenda þess að búseta, nám og rekstur fyrirtækja geti gengið. Þeir sem búa utan þéttbýlis þurfa oft að leita lengra eftir þjónustu en íbúar í þéttbýli og því er mikilvægt að tryggja möguleika þeirra til að eiga samskipti við þjónustuaðila, stjórnvald og stjórnsýslu með rafrænum og öruggum hætti.

Í b-lið 1. hluta tillögunnar er gert ráð fyrir að mótaðar verði tillögur að úrbótum til að greiða fyrir endurnýjun og uppbyggingu ljósleiðarastofn- og aðgangsneta um allt land. Í 12 ára fjarskiptaáætlun eru svo lögð skref í átt að því að tryggja öllum landsmönnum aðgang að háhraðanettengingu sem skilar 30 eða 100 mb. Meiri hlutinn bendir á að á ýmsum svæðum í dreifbýli þar sem markaður hefur reynst fyrir samkeppni er framboð og þjónusta þó langt frá að vera nægilega góð og öflug. Mikilvægt er því að hafa í huga að uppbyggingar er ekki einungis þörf á svæðum sem eru skilgreind sem svæði markaðsbrests. Á ýmsum svæðum þar sem fyrirtæki á markaði hafa haslað sér völl og sjá um þjónustuna er ástandið í raun engan veginn ásættanlegt.

Í tillögunni er meðal annars kveðið á um að stuðla að samnýtingu og samstarfi á ákveðnum sviðum fjarskiptamála og meiri hlutinn telur slík ákvæði afar mikilvæg enda sé óásættanleg sóun í því fólgin að samnýta ekki svo dýrmæta samfélagsinnviði.

Í f-lið 1. hluta tillögunnar er lagt til að settar verði fram myndrænar upplýsingar um fjarskiptastaði, fjarskiptakerfi og þjónustusvæði þeirra.

Í k-lið 3. hluta er jafnframt lagt til að upplýsingum um staðsetningu radíósenda verði safnað og haldið til haga og þær gerðar aðgengilegar almenningi.

Nefndinni bárust athugasemdir við þann lið þar sem bent var á öryggissjónarmið og mikilvægi þess að koma í veg fyrir að valdið yrði tjóni á innviðum fjarskipta. Meiri hlutinn telur mikilvægt að við framkvæmd þessa þáttar verði horft til öryggissjónarmiða, verndunar mikilvægra innviða og þjóðaröryggis.

Nefndin ræddi og mikilvægi öflugs öryggiskerfis þannig að ef hættuástand skapast eða náttúruhamfarir eru yfirvofandi sé unnt að koma skjótum boðum til íbúa og gesta á viðkomandi svæði. Meiri hlutinn fagnar því að sett séu fram markmið um örugg fjarskipti í 3. hluta tillögunnar og áréttar hversu áríðandi er að til séu skýrar viðbragðsáætlanir og fjarskiptakerfi sem komið geta viðeigandi upplýsingum er varða almannaheill á framfæri skjótt og örugglega.

Nefndin fjallaði á síðasta þingi um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti og lögum um Póst- og fjarskiptastofnun þar sem meðal annars var lagt til að CERT-ÍS öryggis- og viðbragðsteymi væri komið á fót og var það mál afgreitt frá þinginu síðasta vor.

Í nefndaráliti meiri hlutans kemur fram að eðlilegt sé að opinberar íslenskar stofnanir og deildir innan þeirra beri íslensk heiti og því er lögð til sú breytingartillaga að í stað CERT-ÍS öryggis- og viðbragðsteymis sé talað um netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar eða netöryggissveitina.

Tillögunni fylgir ekki kostnaðaráætlun en í athugasemdum kemur fram að gert sé ráð fyrir því að fé til að framkvæma verkefni hennar verði sótt í fjarskiptasjóð sem hefur það að markmiði að stuðla að upplýsingum á sviði fjarskipta á grundvelli fjarskiptaáætlunar. Sjóðurinn var stofnaður með lögum nr. 135/2005, um fjarskiptasjóð, og átti gildistími þeirra að vera til ársloka 2011 en var framlengdur til loka árs 2016.

Virðulegur forseti. Ég hef ekki fleiri orð um þessa fjögurra ára áætlun enda vorum við búin að fara í gegnum umræðuna síðasta vor þótt málið væri ekki afgreitt þá, því miður. Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt með þeirri breytingu sem ég tiltók í máli mínu um að stofnuð verði netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar til verndar ómissandi upplýsingainnviðum gegn netárásum.

Undir álitið skrifa auk þeirrar sem hér stendur hv. þingmenn Ólína Þorvarðardóttir, Róbert Marshall, Mörður Árnason og Álfheiður Ingadóttir.