141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

fjögurra ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011--2014.

171. mál
[17:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir ræðuna og árvekni í þessum málum í mörg missiri. Hann er afar vakandi og öflugur málsvari landsbyggðarinnar í þessum málum og hefur ítrekað bent á hversu mikilvæg fjárfesting í fjarskiptainnviðum er til framtíðar. Það er auðvitað þannig sem við eigum að líta á þetta mál sem samfélag, það eru að mínu mati fáar fjárfestingar til framtíðar sem gefa jafnmikið af sér þegar upp er staðið og einmitt fjárfesting í fjarskiptainnviðum.

Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni líka að tækniþróunin er gríðarlega ör og þar skiptir öllu máli að vera skrefi á undan vegna þess að það sem við lítum á sem afar hátæknivætt í dag er orðið úrelt eftir viku. Það eru ýmsar umræður og ábendingar sem hafa komið fram um hvernig við þurfum að passa að fjárfesta ekki í búnaði sem verður orðinn úreltur á skömmum tíma. Þarna þurfum við að hlusta á okkar bestu sérfræðinga í þessum efnum.

Skýrari framkvæmdaáætlun og aðgerðaáætlun. Ég get á ýmsan hátt tekið undir að það sé verkefni þingsins í framhaldinu hvernig eigi að gera verkefnin enn þá skýrari og skilgreina þau með enn afmarkaðri ramma. Þá kemur aftur ágæt samlíking sem hv. þingmaður er með í samgönguáætlun en þar togast líka á á einhvern hátt tiltekin sjónarmið um hvort það sé hlutverk þingsins að marka hinn almenna ramma, hinar almennu forsendur og forgangsröðun og svo eigi aðrir að útfæra eða hvort þingið eigi að setja niður þessa minni handavinnu sem þó auðvitað skiptir öllu máli, þ.e. hvar peningarnir lenda og hvaða áþreifanlegu verkefni verið er að tala um. Í samgönguáætlun er það þingsins að leggja hinar stóru línur um forgangsröðun. Hið sama gildir hér. Ég tek hins vegar undir með þingmanninum að í framhaldinu væri verðugt verkefni að gera aðgerðaáætlun og framkvæmdaáætlun skýrari og hafa aðeins meira kjöt á beinunum.

Þingmaður spyr um færi fjarskiptasjóðs til uppbyggingar. Eins og hann kom sjálfur inn á skiptir höfuðmáli úr hversu miklum fjármunum er að spila. Þar hittir hv. þingmaður naglann á höfuðið, það þarf að finna einhverjar betri og sterkari fjármagnsleiðir vegna þess að það skortir mjög á það og hefur hrapað miðað við hvernig þessu var ætlað að vera. Þingið þarf sem slíkt að huga alveg sérstaklega að því. Ef okkur er alvara með að þetta sé hin rétta fjárfestingarleið til framtíðar verðum við að finna öflugri tekjustofna ef svo má segja.

Ég held að ég hafi tekið almennt á þeim vangaveltum sem fram komu hjá hv. þingmanni. Ég tek undir að það er ýmislegt sem við getum gert betur en þetta held ég þó að sé skref til framfara og ég þakka honum aftur kærlega fyrir hans öflugu málsvörn í þessum málum.