141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011--2022.

172. mál
[17:13]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þessi þingsályktunartillaga mundi verðskulda langa ræðu um ýmislegt og það er líka fróðlegt að lesa þá greinargerð eða athugasemdir sem þingsályktunartillögunni fylgja sem varpar góðu ljósi á stöðuna á fjarskiptamarkaðnum og uppbyggingu hans sem væri áhugavert að ræða nokkuð. Ég ætla í sjálfu sér ekki að gera það að þessu sinni, mig langar aðeins bara að vekja máls á einu atriði sem er mjög lítið rætt í þessu samhengi. Ég hef hins vegar fært það í tal í þessari umræðu og er í sjálfu sér ekkert að kalla eftir viðbrögðum hv. þingmanns, framsögumanns málsins, nema hv. þingmaður telji þá ástæðu til.

Það sem ég er að velta fyrir mér er staða póstmálanna, staðan á póstmarkaðnum sem hefur fallið svolítið í skuggann fyrir allri umræðunni um fjarskiptin almennt, tölvurnar, símana og það allt saman.

Eins og við vitum eru pósthús starfandi víða um landið og póstþjónusta er eitt af því sem við teljum flest ómissandi. Lengst af var það þannig að pósthús voru í hugum okkar flestra nokkurn veginn óhagganleg fyrirbrigði. Við höfum séð þróunina blasa við okkur. Pósthús voru nánast á hverju götuhorni og veitti sennilega ekki af. Við munum það sem fórum í pósthús fyrir 30 árum eða svo. Oft þurftu menn að standa í biðröðum. Þær biðraðir eru almennt talað ekki í pósthúsum í dag nema þá fyrir jólin. Síðan sáum við það að pósthúsum fór að fækka. Það er t.d. ekki lengur pósthús í miðborg Reykjavíkur, sem menn hefðu einhvern tíma talið að væri nánast óhugsandi að gerðist og við þekkjum líka að það hefur dregið mjög úr starfseminni úti á landsbyggðinni. Það er búið að loka pósthúsum víða. Sú ákvörðun var tekin á sínum tíma að færa póstþjónustuna úr hinum hefðbundnu pósthúsum inn í t.d. bankastofnanir og er ekkert við því að segja. Það var í sjálfu sér ágætisákvörðun sem tryggði í ýmsum tilvikum hvort tveggja í senn póstþjónustuna á staðnum og bankastarfsemina á staðnum.

Það hafa komið upp tilvik eins og t.d. á Bíldudal og Flateyri, svo ég taki nú bara nýjustu dæmin, þar sem jafnvel þetta fyrirkomulag hefur ekki dugað til að viðhalda póstþjónustunni né bankastarfseminni. Þá fer auðvitað að bresta í. Íslandspóstur hefur reynt að sinna þessu með því að taka upp landpóstakerfi. Ég hef heyrt skiptar skoðanir um það. Sumir telja að það hafi lukkast ágætlega. Aðrir eru mjög óhressir með kerfið og ég heyrði viðtal við ágætan atvinnurekanda á Bíldudal í útvarpinu núna einn morguninn sem sagði frá því að það gæti kippt fótunum undan hans starfsemi. Það er auðvitað mikið áhyggjuefni sem við þurfum að velta fyrir okkur.

En hver er ástæðan? Ástæðan er náttúrlega blessuð tæknin. Við þekkjum það sjálf að við erum ekkert mjög mikið að skrifa sendibréf eins og menn gerðu áður. Fyrirtækin leysa sín mál í gegnum tölvupóst eða í gegnum síma og allt mögulegt. Í athugasemdunum á bls. 33 eru mjög fróðleg súlurit sem sýna hvernig þessi þróun er. Heildarfjöldi áritaðra bréfa sem voru borin út árið 2006 voru upp undir 60 þúsund en eru núna komin í rúmlega kannski 45 þúsund á árinu 2010 og þróunin virðist vera nokkuð skýr.

Það sem blasir síðan við er það að ef við skoðum samsetninguna þá voru bréf sem eru undir 50 grömm um 50 þúsund á þessum tíma en eru núna komin niður fyrir 40 þúsund. Það skiptir miklu máli að skoða einmitt þessa þróun á bréfunum undir 50 grömmum. Af hverju segi ég það? Jú, það er vegna þess að það er einkaleyfi á dreifingu á bréfum sem eru undir 50 grömm og einkarétturinn er í höndum Íslandspósts, sem er afsprengi gamla Pósts og síma. En þetta er ekki bara einkaréttur heldur líka gríðarlegar skyldur sem eru lagðar þarna á fyrirtæki. Á grundvelli laga um alþjónustu hefur Íslandspóstur skyldu til að standa fyrir dreifingu á pósti alls staðar um landið. 120 þúsund heimili á landinu og 10 þúsund fyrirtæki fá fimm daga dreifingu pósts til sín og það eru ekki nema 156 aðilar, eins og segir hérna í athugasemdunum, sem ekki fá þjónustu fimm daga vikunnar, sem eru 0,13% af öllum heimilum. Ég get ekki sagt annað en að þetta er náttúrlega býsna vel af sér vikið miðað við okkar erfiðu landfræðilegu aðstæður, en þetta hefur auðvitað byggst á því að þetta fyrirtæki hefur haft einkaréttinn. Það hefur ekki mátt nota tekjur sínar af einkarétti til að standa undir samkeppnishlutanum, það vitum við, það er auðvitað bara bannað m.a. í samkeppnislögum og ég hygg líka í lögunum um póstþjónustu. Þetta hefur hins vegar búið til ákveðinn grundvöll fyrir fyrirtækið til að starfa eftir og þar með hefur það getað staðið undir þessari þjónustu.

Nú sjáum við líka á rekstri Íslandspósts að þó að menn séu að reyna þar allt fyrir sér í hagræðingu hefur verið taprekstur á undanförnum árum, þrátt fyrir að menn hafi verið að hækka burðargjöld, þrátt fyrir það að menn séu að reyna að fækka afgreiðslustöðum og gera fyrirtækið nútímalegra á allan hátt þá er þetta engu að síður staðan.

Núna stöndum við frammi fyrir nýju viðfangsefni. Samkvæmt tilskipun sem við höfum fallist á, eða sem við höfum held ég alla vega lögfest, tilskipunin er alla vega orðin bindandi eða er talin vera bindandi, við skulum ekki ganga neitt lengra, þá mun einkaréttarheimild á því að dreifa pósti undir 50 grömmum falla úr gildi um næstu áramót. Þessi tilskipun kvað á um það að aðildarríkjum Evrópusambandsins og þar með EES-ríkjanna held ég, bar að hafa afnumið þennan einkarétt fyrir 31. desember 2010, fyrir sem sagt tveimur árum. Þá fengu 11 aðildarríki leyfi til að fresta afnámi einkaréttarins, en bara til 31. desember 2012 sem er núna eftir rétt rúman mánuð, eftir svona fimm vikur. Ekki er heimild til að fresta gildistöku tilskipunarinnar lengur. Síðan hafa allmörg ríki þegar afnumið þennan einkarétt. Íslensk stjórnvöld tilkynntu í lok árs 2009 að þau hygðust líka sækja um þennan frest og hafa fengið hann og við höfum verið að vinna samkvæmt þessum fresti.

Nú virðist manni af þessum lestri að nú séu að lokast öll sund. Við vitum það að Norðmenn hafa mótmælt þessu mjög harðlega. Þeir líta þannig á að þeir ætli sér ekki að hlusta á þennan boðskap erkibiskupsins frá Brussel og ætla sér að láta sem ekkert sé. Þegar við ræddum þessi mál við fyrri umræðu þá spurði ég hæstv. innanríkisráðherra um þetta og hann svaraði, að mér fannst, býsna skýrt að það kæmi ekki til greina að verða við þessu, við mundum ekki falla frá þessum einkarétti og við mundum ekki hlíta þessum tilskipunum. Við þekkjum, við hv. þingmaður og aðrir þingmenn geri ég ráð fyrir líka, að það getur kallað á ýmis viðbrögð og getur haft afleiðingar í för með sér, ef talið er að við séum ekki að virða EES-samninginn sjálfan.

Ég spurði hæstv. ráðherra til að þetta væri nú alveg skýrt og áréttaði spurninguna. Ég gerði það með þessum hætti, með leyfi virðulegs forseta: „Það þarf að vera gulltryggt hvernig þessari póstdreifingu verður sinnt. Hún er lífsnauðsynleg fyrir byggðir landsins, það blasir við. Ég tel því mjög mikilvægt að hæstv. innanríkisráðherra komi hér aftur og stafi þetta betur ofan í okkur þannig að það liggi þá alveg fyrir að það sé ákvörðun hans, og þar með íslenskra stjórnvalda, ríkisstjórnarinnar, að þessi einkaréttur verði ekki afnuminn um næstu áramót.“

Svar hæstv. ráðherra, með leyfi virðulegs forseta aftur, var svona:

„Hæstv. forseti. Já, það er ásetningur minn að reyna að sjá til þess að svo verði. Ég hef lýst því yfir í ríkisstjórn og hef opinberlega lýst því yfir áður. Það er hins vegar þannig að það er sitthvað sem við komumst ekki upp með gagnvart heilagri ritningu Evrópusambandsins. Við erum knúin til að gera sitthvað sem okkur líkar ekki. Ég hef efasemdir um, og er sammála Norðmönnum hvað það snertir, að þetta eigi að heyra undir EES-samninginn og ég er andvígur því. En við höfum í þessu efni ákveðið samflot með Norðmönnum sem einnig eiga í viðræðum við ESB um þetta atriði. Þetta er minn vilji og minn ásetningur. Hvað við síðan komumst upp með að gera skal ég ekkert fullyrða um, ég get það að sjálfsögðu ekki, en þannig vil ég hafa þetta. Ég hef alltaf verið mjög andvígur afnámi einkaréttar Pósts og síma. Ég hef verið mjög eindregið andvígur því og mun gera það sem ég mögulega get til að koma í veg fyrir að sá réttur verði afnuminn.“

Ég held að þetta sé eins skýrt og það getur verið. Hæstv. ráðherra er á móti því að við afnemum einkaréttinn núna eftir fimm vikur. Nú hef ég ekki upplýsingar um hvað hefur gerst síðan þá og ætti kannski frekar að spyrja hæstv. innanríkisráðherra um það hvernig þessi mál standa. Verður það þannig þegar búið er að lesa í sundur jóla- og áramótapóstinn að 50 gramma bréfin verði ekki lengur undir einkarétti? Hvaða afleiðingar hefur það? Hvaða afleiðingar hefur þetta fyrir rekstur Íslandspósts? Eru einhver fyrirtæki núna komin í startholurnar sem í góðri trú telja að einkaréttinum verði aflétt og ætla sér að fara inn á þennan markað, fleyta rjómann þar sem það er þægilegast? Hvernig verður þá staðið að því að tryggja póstsendingar um landið? Hvernig verður staðið að því að koma í veg fyrir að það verði einhver brestur á því afhendingaröryggi sem við höfum verið að byggja upp? Ég nefndi áðan að það séu ekki nema 0,13% af öllum heimilum sem fá ekki póstþjónustu fimm daga vikunnar sem mér finnst ótrúlega góður árangur.

Mér hefur fundist þetta mál hafa legið allt of mikið í þagnargildi. Menn hafa ekki alveg kveikt á þessu og jafnvel umræða mín náði bara eyrum eins fjölmiðils. Ég held að það hafi verið mitt góða Morgunblað sem kveikti á því að þetta gæti skipt máli. Aðrir hafa einhvern veginn ekki áttað sig á þessu. Það getur vel verið að þetta sé ekki vandamál og að ég sé að hafa einhverjar óþarfa áhyggjur, en ég held að miðað við það að þessi dreifing er með sínum annmörkum sem ég nefndi áðan vegna breytinga sem Íslandspóstur hefur verið að grípa til, þá er þessi þjónusta þó með þeim hætti að hér um bil öll heimili á landinu fá fimm daga póstþjónustu. Það er ástand sem ég vil gjarnan að verði áfram. Þegar svona breytingar verða, sem lúta hér um bil öllum árituðum bréfum sem voru borin út t.d. á árinu 2010, þá sýnist manni að það geti með einhverjum hætti komið við, við skulum ekki ganga lengra en það, komið við rekstur Íslandspósts og þar með möguleika hans til að sinna sínu góða hlutverki áfram.

Ég vildi aðeins velta vöngum yfir þessu og koma þessum umþenkingum mínum inn í umræðuna. Ég ítreka að þetta á fyrst og fremst erindi við hæstv. innanríkisráðherra og mögulega hæstv. utanríkisráðherra sem væntanlega fer með EES-samninginn og þarf að svara með hvaða hætti að þessu verði staðið. Mér er auðvitað ekkert að vanbúnaði að spyrja hæstv. ráðherra um þetta mál en engu að síður taldi ég nauðsynlegt að það kæmi hingað inn. Líka ef hv. þingmaður, formaður umhverfis- og samgöngunefndar, tekur til máls á eftir í ræðu eða andsvari og mundi þá greina okkur frá því hvort þessi mál hafi eitthvað borið á góma í undirbúningi að þingsályktunartillögunni inni í umhverfis- og samgöngunefnd, áður en hún kom hingað inn til síðari umr.