141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011--2022.

172. mál
[17:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég vil í örstuttu máli þakka hv. þingmanni aftur fyrir að vekja máls á þessu mjög svo mikilvæga málasviði. Ég deili áhyggjum hans af þróuninni og er mjög ánægð með afstöðu Norðmanna og vona að hún haldi, þannig að það veiti þá okkur líka skjól hvað varðar það að afnema þennan einkarétt.

Þær upplýsingar sem við höfum fengið í umhverfis- og samgöngunefnd og ég sem formaður nefndarinnar er að þetta taki sannarlega ekki gildi núna um áramótin. Við Íslendingar, íslensk stjórnvöld og hæstv. innanríkisráðherra erum af fremsta megni að reyna að komast hjá því að þurfa að gangast undir þetta. Norðmenn veita okkur ákveðið skjól vegna þeirra afstöðu, en þetta er sem sagt enn þá í athugun og skoðun. Það er ekki enn ljóst hvernig málum lyktir eða hvernig leikar fara að lokum. Afstaðan er í það minnsta skýr og þar deili ég þeim áhyggjum sem hér hafa fram komið.

Við ræddum þó nokkuð stöðu póstþjónustunnar í nefndinni. Kannski er ég svona gamaldags en mér finnst mjög mikilvægt að haldið sé uppi öflugri póstþjónustu. Aðrir hafa bent á að það sé hugsanlega verið að veita ofþjónustu, þ.e. að sá góði árangur sem íslensk póstþjónusta stendur fyrir sé jafnvel óþarflega góð. Að rannsókn hafi sýnt að fólk þurfi ekki endilega á því að halda að fá póstinn sinn svona oft og sérstaklega þegar tekið er mið af tækniframförum, en þá segi ég á móti: Ef það á að minnka hina hefðbundnu póstþjónustu bréfa og böggla þá verður að koma á móti að fjarskiptin séu 100% áreiðanleg og það vantar enn upp á svo víða, úti á landi sérstaklega. Það verður að tryggja þá þjónustu, ef við ætlum að leyfa okkur að gefa meira eftir á hinu sviðinu þar sem við höfum, eins og hv. þingmaður sagði, staðið okkur mjög vel. Það er áhyggjuefni þegar pósthúsum fækkar og póstþjónustan sem slík minnkar, þá þarf að vera klárt jafnvægi í þessum efnum.

Ég vildi bara koma örstutt inn á þessi atriði þar sem hv. þingmaður fór svo vel í gegnum þau. Varðandi afnám einkaréttarins er greinilega ekki ljóst enn hvernig málum mun lykta, en það er alla vega alveg klárt að ekkert verður af þessu núna um áramótin. Vonandi náum við að halda áfram í höndina á Norðmönnum í þessum efnum og tryggja að þessu verði ekki dembt yfir okkur eins og ég held að hv. þingmaður hafi sagt að erkibiskupinn ætlast til í Brussel.