141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hér hafa nokkur mál verið viðruð í störfum þingsins. Mig langar að koma inn á nokkur þeirra, einkum og sér í lagi það sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson nefndu varðandi kynbundinn launamun sem er að sjálfsögðu meinsemd í samfélagi okkar og við þurfum að vinna á. Hún er því miður ekki ný af nálinni og í skrifum hjúkrunarfræðinga hefur komið fram að launamunurinn og þau laun sem hjúkrunarfræðingar búa við hafa ekki batnað frá því fyrir hrun. Á árunum fyrir hrun var þessi launamunur til staðar og jafnvel meiri. Það er auðvitað umhugsunarvert að á hinum svokölluðu góðærisárum hafi þessari mikilvægu stétt heilbrigðisstarfsmanna verið boðið upp á þau laun sem raun ber vitni.

Ég tek undir með hv. þingmönnum um að það er meinsemd sem vinna þarf á, ekki bara tala um heldur taka raunverulega á. Það hlýtur að vera forgangsverkefni stjórnvalda að gera það, fara í endurmat á stofnanasamningum eins og hér hefur verið nefnt.

Ég ætla líka að nefna það og fagna því sérstaklega að 1. umr. um stjórnarskrármálið lauk í gær. Það mál er nú komið til nefndar. Ég fagna því að vinna við það mikilvæga mál haldi nú áfram. Það fær meðferð í þingnefnd og vonandi vinnur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hratt og vel þannig að við fáum að taka málið til 2. umr. áður en langt um líður.

Ég fagna því jafnframt að í dag er á dagskrá umræða um rammaáætlun sem er eitt af stórum málum núverandi ríkisstjórnar. Það er mjög þýðingarmikið mál, það er stórt í sniðum og þess sér stað í mjög ítarlegum nefndarálitum. Þar koma fram alls konar sjónarmið, sem er eðlilegt í svo stóru máli. Uppi eru ólík sjónarmið en vonandi tekst okkur að vinna okkur fram úr því þannig að við fáum góða (Forseti hringir.) og heildstæða rammaáætlun áður en yfir lýkur.