141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að tala á sömu nótum og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir gerði áðan varðandi Evrópusambandið. Ég vil líka að það komi fram að þegar stækkunarstjóri sambandsins var spurður um undanþágur frá reglum sambandsins kom skýrt fram að ekki er hægt að veita undanþágur frá lagaramma sambandsins. Það hljótum við öll að skilja, það er auðvitað ekki hægt að veita undanþágu frá lögum og það á að sjálfsögðu við um íslensk lög líka.

Mig langar að vekja athygli á einu undarlegu máli. Á heimasíðu Neytendasamtakanna er frétt þar sem fram kemur að fulltrúar Bændasamtakanna hafi gengið út af fundi samningahóps um landbúnaðarmál í þessum viðræðum við Evrópusambandið, vegna þess að ekki er tekið fram í samningsafstöðunni að Ísland ætli að halda tollvernd gagnvart vörum frá Evrópusambandinu eða öðrum ríkjum.

Það er mjög sérkennilegt fyrir þingmann sem situr í utanríkismálanefnd að lesa um samningsafstöðuna í fjölmiðlum. Við erum bundin trúnaði í utanríkismálanefnd um samningsafstöðuna, við megum ekki ræða hana. Svo eru fulltrúar í samningshópnum eins og Neytendasamtökin að tala um þetta úti um allar jarðir að mér heyrist. Við hljótum því að gera alvarlegar athugasemdir varðandi það að svo virðist sem utanríkismálanefnd sé bundin trúnaði en þeir sem eru í samningshópunum séu ekki bundnir trúnaði. Enn og aftur, forseti, óska ég eftir því að tekið verði á þessari stöðu utanríkismálanefndar.

Svo vil ég benda á annað. Þegar hv. þm. Jón Bjarnason var ráðherra landbúnaðarmála gaf hann út erindi eða sendi bréf til þeirra sem vinna að viðræðunum um hver væri samningsafstaða ráðuneytisins, þ.e. hvaða línu það hefði gefið. Hún reyndist vera sú að ekki er samið um afnám tollverndar. Við hljótum því að spyrja: Er nýr atvinnuvegaráðherra og landbúnaðarráðherra búinn að breyta þeirri stefnu? Er búið að skrifa nýtt bréf þar sem fram kemur að (Forseti hringir.) óhætt sé að gefa eftir tollvernd?

Frú forseti. Þetta er undarlegt mál sem við hljótum að krefjast að fá skýringu á.