141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda aðeins áfram með málefni hjúkrunarfræðinga. Hér á landi starfa 2.800 hjúkrunarfræðingar en fram til ársins 2020 munu 950 hjúkrunarfræðingar fara á lífeyri en einungis 900 koma til starfa.

Það leiðir hugann að því að sá fjöldi hjúkrunarfræðinga sem nú er starfandi á vegum íslenska ríkisins og hér á landi er nákvæmlega heildarþörfin hjá Norðmönnum. Þá vantar nú tæplega 3.000 hjúkrunarfræðinga til starfa og árið 2035 verður hjúkrunarfræðingaþörf Norðmanna 28.000, sem eru tíu sinnum fleiri hjúkrunarfræðingar en starfa hér á landi.

Það eru alvarleg tíðindi, frú forseti, sérstaklega í ljósi þess að Norðmenn sækja mjög í íslenska hjúkrunarfræðinga. Við eigum frábært starfsfólk og það er ekki nema von að Norðmenn sæki hingað til hjúkrunarfræðinga okkar þegar þörfin úti er svo brýn. Það er kannski m.a. þess vegna sem hjúkrunarfræðingar eru nú farnir að segja upp á Landspítalanum.

Hæstv. forsætisráðherra kom fram í fréttum fyrir örfáum dögum og sagði það vera óþolandi ástand að standa frammi fyrir launamun kynjanna. Hún talaði eitthvað á þeim nótum að aðilar mundu alltaf finna sér leið til að viðhalda kynjabundnum launamun.

Ég vil minna á það, frú forseti, að valdið í þessu máli liggur hjá ríkisstjórninni, þetta er samningsmál milli félagsins og ríkisins og ég skora því á hæstv. forsætisráðherra, sem hefur alla tíð verið talsmaður jafnréttis, að ganga nú í það að semja við hjúkrunarfræðinga, þá fjölmennu kvennastétt, og sýna það í verki að hún meinar það sem hún segir.