141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

störf þingsins.

[11:02]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Í gær lukum við umræðu um stjórnarskrármálið, breytingar á stjórnskipun Íslands. Það var málefnaleg umræða og mörg sjónarmið sem þar komu fram. Ég vona svo innilega að meiri hlutinn hafi lagt ríkt við hlustir í því máli þótt ég verði að viðurkenna að í lok ræðu hv. formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar túlkaði ég það alla vega þannig að það væri áframhald á þeirri vegferð sem meiri hlutinn hefur verið á að þetta mál skyldi keyrt í gegn með litlum breytingum. En ég vona innilega að menn séu tilbúnir að hlusta á pakkann í heild sinni og hlusta á þau sjónarmið sem þar koma fram til að breikka samstöðuna um það mikilvæga mál.

Á eftir ætlum við að ræða rammaáætlun. Sú vinna sem þar hefur verið á hendi meiri hlutans og ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingar hefur verið sama marki brennd. Þar hefur verið gengið nokkuð skarpt fram að mínu mati og öfgar sem ég vil telja að í aðra áttina hafi fengið að njóta sín meira en ella. Afleiðingin verður sú að plagg eins og rammaáætlun, sem var faglega til stofnað og menn bundu miklar vonir við að væri leið til að ná sáttum milli ólíkra afla í samfélaginu, verður pólitísk stefnumörkun sem hver ríkisstjórn mun þá væntanlega leggja fram að nýju í framtíðinni.

Því vil ég segja núna áður en umræðan hefst að í gær áttum við að frumkvæði formanns Framsóknarflokksins umræður við hæstv. forsætisráðherra um stöðu þjóðarbúsins. Þar var hæstv. forsætisráðherra að guma sig af gríðarlega miklum hagvexti umfram önnur lönd meðan við vitum að hér þarf að vera að minnsta kosti 5% hagvöxtur til að við getum staðið undir þeim skuldbindingum sem við erum með og til að standa undir því velferðarkerfi og launum sem við viljum greiða fólkinu sem vinnur meðal annars hjá hinu opinbera og í samfélaginu öllu. Þess vegna þarf meðal annars að skoða rammaáætlunina og önnur atvinnuskapandi tækifæri með opnum huga og opnari huga en gert hefur verið til þessa.