141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:37]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Mörður Árnason fór yfir niðurstöðu meiri hluta nefndarinnar og talaði um sátt um leikreglur og að nú væri horft til þess að með samþykkt þessarar tillögu næðist, eins og mátti skilja af orðum hans, langtímasátt um leikreglur. Ég get fullyrt að svo er ekki, ekki miðað við þá meðferð sem málið hefur fengið og ekki miðað við þá niðurstöðu sem við erum að horfa hér á. Hér er verið að búa til ósætti um mál sem fór af stað í ágætisfarvegi og var í raun sáttaupplegg og málamiðlun.

Það kom fram hjá honum að farið hefði verið eftir niðurstöðum ráðherranna, eftir samfélagslegum og pólitískum sjónarmiðum. Það er nákvæmlega það sem við gagnrýnum í niðurstöðu þessarar nefndar og niðurstöðu ráðherranna, að það hafi verið farið eftir pólitískum sjónarmiðum. Það er nákvæmlega það sem ekki var lagt upp með við gerð rammaáætlunar. Þar átti að setja pólitíkina til hliðar og taka faglega á málum, ekki vera með pólitísk sjónarmið heldur flokka eftir faglegum atriðum. En hér er staðfest af flutningsmanni meirihlutaálitsins að pólitísk sjónarmið ráða ferð.

Virkjunarframkvæmdir eru langt ferli. Það eru framkvæmdir í gangi í dag, eins og hv. þingmaður kom inn á, en að þeim loknum verður hér stórt gat vegna þess að verið er að loka á alla þá virkjunarkosti sem næstir geta verið í röðinni af tæknilegum ástæðum. Hvernig og hvar sér hann fyrir sér að fjárfestingar sem kallað er eftir í íslensku atvinnulífi geri sig þegar búið er að útiloka fjárfestingar (Forseti hringir.) á þessu mikilvæga sviði þar sem allir sérfræðingar sem um málin hafa fjallað, (Forseti hringir.) bæði innlendir og erlendir, eru sammála um að það (Forseti hringir.) verður að gerast á þessum vettvangi? Þannig verður (Forseti hringir.) hagvöxtur að fara hér upp en ekki að halda áfram á þeirri (Forseti hringir.) niðurleið sem hann er á í dag.

(Forseti (ÁÞS): Forseti áminnir þingmenn um að virða ræðutímann.)