141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er leiðinlegt að hv. þm. Jón Gunnarsson sé ekki sáttur en þegar talað er um samkomulag um leikreglur er ekki átt við að það sé skilyrði að hv. þm. Jón Gunnarsson sé sáttur við þær. Ef sættir byggjast á því að allir 63 þingmennirnir eða allir 320 þús. Íslendingarnir í landinu segi já geta slíkar sættir aldrei tekist. Ég er að tala um samkomulag um leikreglurnar á milli þeirra aðila sem helst eru í þessu, en ekki um að menn geti nánast haft neitunarvald í krafti þess að annars takist ekki sættir.

Um fjárfestingar fram undan er ég ekki sammála Jóni Gunnarssyni um að helstu sérfræðingar bendi einungis á stórvirkjanir sem möguleika okkar til fjárfestinga. Mér hefur ekki sýnst sem fjárfestingar á því sviði hafi verið mjög vænlegar síðustu ár. Við bendum á það í nefndaráliti okkar að fjármagn standi einmitt í vegi fyrir ýmsum af þeim virkjunarkostum sem hér eru í orkunýtingarflokki og menn hafa talið að yrðu virkjaðir. Við sýnum hvaða virkjunarframkvæmdir eru í gangi, sumar þeirra eru langt komnar og aðrar nýhafnar. Ég tel líka að orkufyrirtækin hafi margvísleg verkefni fram undan við annað en nýjar stórvirkjanir sem Jón Gunnarsson vill. Við bendum á tilraunir Landsvirkjunar með vindorku, við bendum á sjávarföll og auðvitað líka á að í kerfinu er meiri orka. Helsta verkefni vatnsaflsfyrirtækjanna á svo að vera að ná meiri orku út úr þeim virkjunum sem nú þegar eru til staðar.

Ég hafna þeirri kenningu Jóns Gunnarssonar að hér (Forseti hringir.) þurfi að virkja allt sem flýtur, allt sem upp sprettur af jarðvarma (Forseti hringir.) á næstu árum til að toga landið upp úr þeim hörmungum sem (Forseti hringir.) flokkur hans kom því í haustið 2008.