141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:42]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Sættir um leikreglur þeirra sem helst eru í þessu? Aftur kemur pólitíkin inn. Við sem erum hinum megin og öll þau fjölmörgu sjónarmið fyrirtækja, landeigenda og fjölmargra samtaka og aðila sem hafa komið fram erum ekkert með í þessu. Bara hinir sem vilja fara þá leið eru í þessu.

Honum hafa ekki sýnst fjárfestingar vænlegar, honum sýnast vera fjármögunarvandræði. Samkvæmt fjárfestingasviði Íslandsstofu hafa vandræðin fyrst og fremst legið í því að ekki hefur verið hægt að gefa erlendum fjárfestum svör um það hvenær þeir geta fengið orku hér á landi. Þetta eru staðreyndir í málinu. Það er ekkert verið að tala um nýjar stórvirkjanir, það er bara verið að tala um að halda áfram í því ferli sem við erum í.

Hvað nefnir þá hv. þingmaður? Hann nefnir vindorku og sjávarfallaorku og sýnir þar með og opinberar algjöra vanþekkingu sína á málaflokknum. Þetta er á algjöru tilraunastigi. Það liggur fyrir að framleiðsla raforku með virkjun vindorku á Íslandi er mjög óhagkvæm í öllum (Forseti hringir.) samanburði við aðra virkjunarkosti í landinu, öllum samanburði, (Forseti hringir.) mjög óarðbær. Það má kannski skoða hana gagnvart einhverjum sem geta borgað miklu hærra verð. (Forseti hringir.) Sjávarfallaorkan er bara á byrjunarreit, það mál. (Forseti hringir.) En þetta er framtíðarsýn (Forseti hringir.) hv. þm. Marðar Árnasonar á því hvernig við byggjum upp atvinnulífið.

(Forseti (ÁÞS): Enn og aftur minnir forseti hv. þingmenn á að virða ræðutíma.)