141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Mér hefur ekki borist þetta minnisblað, það var ekki ætlað mér sem … (KLM: Þú baðst um það sjálfur.) Forseti, þingmaðurinn vill fá orðið aftur, getur hann fengið það? Get ég gefið honum af mínum tíma?

(Forseti (ÁÞS): Hv. þm. Mörður Árnason hefur orðið.)

Ég lít á þetta minnisblað sem eitt af mörgum minnisblöðum sem ég bað um en hef ekki fengið, hvorki úr fyrrverandi iðnaðarráðuneytinu né úr umhverfisráðuneytinu.

Málið með Hólmsá er, eins og það er rakið á einni og hálfri síðu í nefndaráliti okkar sem ég bendi hv. þingmanni á að kynna sér, að þar misfórust greinilega gögn. Það voru ekki ráðherrarnir, það voru ekki einu sinni formannaákvarðanir, heldur sjálf verkefnisstjórnin sem sagði: Við getum ekki tekið afstöðu til þeirra gagna sem eru komin fram vegna þess að þau komu of seint.

Það er þannig, og það er eitt af því sem verðum að gera okkur grein fyrir í því ferli sem nokkrar ríkisstjórnir hafa staðið að, að það er ekki verið að meta einstaka kosti. Menn setjast ekki í kringum borð og segja: Jæja, nú tökum við þennan kost. Kostur A, hvernig er hann? Hann er ágætur, tökum hann bara og virkjum þarna. Svo kemur kostur B og þá segja menn: Nei, þarna er fallegur foss, þarna er fallegur lundur sem við þurfum að vernda, við skulum ekki virkja hann. Og svo kemur kostur C.

Kostirnir eru metnir saman. Þegar forsendur eins kostar breytast getur það haft áhrif á aðra kosti og hefur áhrif á heildarröðunina. Þess vegna sagði fyrrverandi formaður hinnar fyrrverandi verkefnisstjórnar, ég held það geti ekki verið neitt leyndarmál, á fundi þar sem ég og hv. þingmaður vorum staddir, að áður en formannahópurinn tók við hafi þeim í verkefnisstjórninni ekki verið kleift að meta þessi gögn. Hún sagði ekkert um hvort þau væru nákvæmlega rétt eða ekki, það ætla ég heldur ekki að leggja mat á. Ég tel að við þingmenn eigum ekki að gera það heldur eigum við að fela það þeim sem til þess eru best færir, (Forseti hringir.) fólkinu í faghópunum og síðan þeim sem vinna tillögurnar eftir það.