141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:52]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að eyða tíma mínum í að ræða um pólitísk inngrip í þetta verkferli og hversu mikilvægt sé að rammaáætlun sé komin fram, ég geymi það til ræðu minnar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, framsögumann málsins, hvort afstaða hans sé sú þegar hann lýsir sjötta verkþætti, meðförum þingsins, að þingið geti ekki komið fram með breytingar á tillögunni? Mér finnst mikilvægt að það komi fram.

Þá vil ég líka spyrja hv. þingmann, þar sem hann ræddi sjálfur í fyrri umræðu um hugsanlegar breytingar á biðflokknum og biðflokkurinn væri í raun að hluta til geymsluflokkur, hvort þær tillögur sem ég lagði hér fram í vor og hef talað fyrir, að biðflokkurinn yrði tvískiptur eða breikkaður, hafi komið til umfjöllunar? Annars vegar biðflokkur til nýtingar til þess að möguleiki væri að fá fjármagn til frekari rannsókna og hins vegar raunverulegur biðflokkur þar sem við geymdum okkur að taka ákvarðanir vegna þess að við værum ekki tilbúin til þess. Mér hefur fundist að vinnubrögðin með þá tillögu hjá meiri hlutanum væru á margan hátt þannig. Í síðasta andsvari lýsti hv. þingmaður kannski í raun og veru því að það væri inni ákvörðun að geyma hlutina í biðflokknum.

Aðeins í sambandi við Hólmsárvirkjun og ýmis önnur gögn sem eru til grundvallar í nefndarálitinu, þá stendur, með leyfi forseta:

Í áætluninni með þessari þingsályktun skal í samræmi við markmið sömu laga, þ.e. um rammaáætlun, leggja mat á verndar- og orkunýtingargildi landsvæða, efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar.

Nú vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann telji að öll þau atriði hafi verið gerð með jafnríkum hætti? Ég er sérstaklega að benda á samfélagslega atriðið og þá með tilliti til (Forseti hringir.) Hólmsárvirkjunar með möguleika þar í Skaftárhreppi til atvinnusköpunar (Forseti hringir.) og nauðsyn þess, og hvort þessi sjónarmið hafi verið vegin (Forseti hringir.) og metin.