141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:56]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er áhugavert svar um það hvort Alþingi eigi möguleika á að breyta hlutum eða ekki. Ég þarf að fara betur yfir það í ræðu minni seinna.

Einmitt varðandi Hólmsárvirkjun, það sem kom fram í andsvörum hv. þm. Kristjáns L. Möllers. Það vantaði gögn. Það voru mannleg mistök, þau voru lítil. Telur hv. þingmaður ekki að það hafi verið frumkvæðisskylda ráðherranna að skoða þau gögn, nægur var nú tíminn, eitt og hálft ár? Og koma þannig einmitt út af samfélagslegum áhrifum og kannski þeirri yfirlýsingu sem Skaftárhreppur gaf þegar hann var í aðalskipulagsvinnu í samstarfi við meðal annars umhverfisráðherra um að stækka Vatnajökulsþjóðgarð. Sátt innan þess samfélags í anda rammaáætlunar um vernd og nýtingu, stækka Vatnajökulsþjóðgarð og setja þrjú eða fjögur virkjunarsvæði inn á aðalskipulagið. Sá kostur, Hólmsárvirkjun neðri í Atley, var þar efstur og sveitarfélagið berst fyrir því að fá þennan kost inn, hefur mætt hér á fundi. (Forseti hringir.) Var ekki nægur tími til þess? Mér finnst þetta alveg með ólíkindum og eyðileggur — (Forseti hringir.) það hefði verið mjög snjallt hjá nefndarmönnum og (Forseti hringir.) … taka þennan kost inn til að sýna (Forseti hringir.) að það er einhver lógík í því verkferli. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁÞS): Forseti biður þingmenn að virða ræðutíma.)